Með tíu í meðaleinkunn allt árið

Dúxinn Matthías Jónsson ásamt foreldrum sínum, Brynju Halldórsdóttur og Jóni …
Dúxinn Matthías Jónsson ásamt foreldrum sínum, Brynju Halldórsdóttur og Jóni Þorbjörnssyni. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta kom mér kannski ekki beint á óvart, enda var ég með 10 í meðaleinkunn á þriðja árinu mínu. Maður er samt alltaf aðeins undrandi og þetta er virkilega góð tilfinning,“ segir Matthías Jónsson, sem útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík í gær. Matthías var dúx skólans en hann útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,83.

Matthías segir tæknina fyrst og fremst felast í því að skipuleggja sig jafnt og þétt yfir veturinn.

„Ég læri í sjálfu sér ekkert meira en aðrir fyrir lokaprófin, en yfir veturinn hef ég lært meira og þá kann maður þetta þegar að prófunum kemur. Það er líka mikilvægt að hafa áhuga á námsefninu, þá gengur allt miklu betur.“

Hefur fimm daga til að velja háskólanám

Stærðfræði og eðlisfræði hafa alltaf legið best fyrir Matthíasi og hyggur hann á nám í verkfræði næsta haust.

„Áhugi minn liggur helst í stærðfræði, eðlisfræði og slíkum greinum. Ég kláraði tíu stærðfræðiáfanga í Kvennó á þremur árum, alla nema einn sem voru í boði. Ég á enn eftir að ákveða í hvers konar verkfræði ég ætla og í hvaða skóla, en ég hef reyndar bara fimm daga til þess að koma því á hreint.“

Í sumar mun Matthías starfa á Keflavíkurflugvelli, en hann hefur nóg fyrir stafni fyrir utan skólastofuna.

„Ég er núna að byrja að vinna á Reykjavíkurflugvelli hjá Global Fuel og Flugþjónustunni og verð þar alveg fram að háskóla. Auk þess stunda ég crossfit tvisvar í viku og æfi skvass hjá Veggsport. Foreldrar mínir, Jón Þorbjörnsson og Brynja Halldórsdóttir, eru á fullu í þeirri íþrótt og ég dróst inn í hana með þeim fyrir nokkrum árum.“

Þrjúþúsundasti Kvenskælingurinn útskrifaður

Semi-dúx var Björk Lárusdóttir, en hún útskrifaðist einnig af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 9,67.

136 nemendur útskrifuðust úr Kvennaskólanum í dag, en meðal þeirra var þrjúþúsundasti nemandinn sem skólinn útskrifar. Þar með hafa í heildina 3.118 nemendur útskrifast úr skólanum frá upphafi. 

mbl.is