„Klósett fyrst, hof síðar“ 

Ofbeldi gagnvart konum á Indlandi hefur vakið mikla athygli umheimsins undanfarin misseri eða allt frá því að ung kona lést eftir hrottalegar misþyrmingar í strætisvagni þar sem nokkrir menn nauðguðu henni í desember 2012. Í þorpinu Katra Shahadatganj hafa ungar stúlkur lengi óttast myrkrið meira en nokkuð annað enda ekki óalgengt að þær séu áreittar af körlum þegar þær eru á heimleið eða þurfa að gera þarfir sínar.

Hópur karla nauðgaði og myrti tvær unglingsstúlkur frá þorpinu sem er í í Uttar Pradesh-héraði, fyrir átta dögum síðan. Þær höfðu farið út af heimili sínu til þess að gera þarfir sínar að kvöldlagi. Þær fundust morguninn eftir hangandi í tré. Báðar stúlkurnar tilheyra hópi stéttleysingja og er vart hægt að komast neðar í þjóðfélagsstiganum á Indlandi. 

Maharani Devi, sem býr í þorpinu ásamt fjölskyldu sinni, segir að ungar stúlkur verði oft fyrir áreiti af hálfu karlmanna og þær fari aldrei einar á hveiti- og myntuakrana.

„Frá því þetta gerðist eru þær enn hræddari en áður,“segir Devi en á heimili hennar er ekkert klósett - ekkert frekar en á öðrum heimilum í þorpinu. Líkt og fram hefur komið höfðu stúlkurnar tvær sem var nauðgað og myrtar farið út um kvöldið til þess að gera þarfir sínar en um hálfur milljarður Indverja hefur ekki aðgang að salernisaðstöðu og gerir þarfir sínar úti á víðavangi. Einkum er þessu þannig farið í strábýlum héruðum þar sem fátækt ríkir.

Konur aldrei berskjaldaðri

Carolyne Wheeler, sem starfar fyrir samtökin WaterAid, sem meðal annars hefur rannsakað stöðu hreinlætismála í Uttar Pradesh, segir að þriðjungur kvenna þar hafi enga aðra möguleika á að gera þarfir sínar fyrr en eftir sólsetur eða fyrir sólarupprás. Í flestum tilvikum verði þær að fá einhvern með sér til þess að fylgjast með mannaferðum og standa á verði.

„Við þessar aðstæður eru konur mest berskjaldaðar og vitneskjan um að á hverjum degi þurfi hópur kvenna að taka þessa áhættu er okkur áfall,“ segir Wheeler í viðtali við AFP.

En skortur á hreinlætisaðstöðu er ekki nýr af nálinni og vandamálið blasir alls staðar við. Fyrir síðustu þingkosningar hét flokkur nýkjörins forsætisráðherra, Narendra Modi, því að klósett kæmu á undan í forgangsröðinni í héruðum eins og Uttar Pradesh en hindúa hof. „Klósett fyrst, hof síðar,“ sagði Modi í ræðu í fyrra. 

Óttinn alltaf nálægur

Í viðtali við AFP segir kona sem er ættingi stúlknanna tveggja sem voru myrtar að hún vildi ekki bara að morðingjarnir yrðu dregnir fyrir rétt heldur einnig að yfirvöld myndu annast byggingu salernisaðstöðu í þorpinu.

Hún segist ekki óttast snáka, skóginn eða villidýr úti í náttúrunni í nágrenninu en hún sé alltaf hrædd þegar hún geri þarfir sínar úti í guðsgrænni náttúrunni.

En það er ekki bara skortur á salernisaðstöðu í þorpinu því í Katra Shahadatganj, líkt og í öðrum þorpum í héraðinu, er rafmagn einungis í nokkra klukkustundir á dag, vatnið er fúlt og skólpið rennur í gegnum þorpið.

Stúlkurnar tvær, 14 og 16 ára, áttu sér drauma líkt og önnur ungmenni og að sögn móður yngri stúlkunnar dreymdi dóttur hennar um að gera eitthvað meira í lífinu en að ganga í hjónaband. Hana langaði til að fara í framhaldsskóla líkt og strákarnir í þorpinu og fá vinnu, segir móðirin í samtali við BBC nýverið.

Foreldrar hennar höfðu ákveðið að leyfa henni að halda áfram námi þar sem hún væri yngsta stúlkan í fjölskyldunni. Því þrátt fyrir að hafa ekki sjálf fengið að mennta sig þá legðu foreldrar mikið á sig til þess að tryggja það að börn þeirra fengju að njóta þess sem þau fóru á mis við.

mbl.is