Með hæstu einkunn í sögu MK

Verðlaunahafar - Þau Guðbjörg Júlia Magnúsdóttir, Darri Egilsson og Harpa …
Verðlaunahafar - Þau Guðbjörg Júlia Magnúsdóttir, Darri Egilsson og Harpa Sigurðardóttir hlutu viðurkenningar fyrir námsárangur sinn Íris Mjöll Ólafsdóttir

Darri Egilsson, dúx Menntaskólans í Kópavogi í ár, útskrifaðist á dögunum með hæstu einkunn sem þekkst hefur í sögu skólans. „Þetta er ekki flókin formúla. Það þarf bara að leggja hart að sér og mæta vel,“ sagði Darri aðspurður um árangur sinn. Meðaleinkunn Darra var 9,8 en hærri útskriftareinkunn hefur ekki sést í 40 ára starfssögu skólans.

Darri hlaut viðurkenningar í íslensku, stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, líffræði og spænsku.  Þá hlaut hann viðurkenningu Rótarýklúbbs Kópavogs fyrir sérstakan dugnað og námsárangur í raungreinum og styrk úr Viðurkenningarsjóði Menntaskólans í Kópavogi. 

Darri æfir fótbolta fimm til sex sinnum í viku með Ægi og er að vinna á Kópavogsvelli í sumar. „Grasið er grænna þar, það er bara staðreynd. Þetta er fallegasti völlur landsins.“ Darri segist ætla í iðnaðarverkfræði í HÍ enda sé stærðfræði hans sterkasta hlið. „Þetta á eftir að henta mér vel. Þetta er víðfeðmt og fjölbreytt nám þannig að ég get haldið öllu opnu.“

Aðspurður hvort hann mæli með MK var Darri ekki lengi að hugsa sig um. „MK er frábær skóli. Þar eru frábærir kennarar sem koma vel til móts við nemendur, námið er krefjandi og aðstaðan er til fyrirmyndar.“

Foreldrar Darra eru Guðný Þórisdóttir leikskólakennari og Egill Sveinbjörnsson vélstjóri.

Þá útskrifuðust þær Guðbjörg Júlía Magnúsdóttir og Harpa Sigurðardóttir, semídúxar, með afburðarárangur í raungreinum. Öll voru þau með 100% mætingu í skólann. 

Afhending - Margrét Friðriksdóttir skólameistari afhendir dúxinum prófskírteinið sitt
Afhending - Margrét Friðriksdóttir skólameistari afhendir dúxinum prófskírteinið sitt
mbl.is