Veitir innsýn í heim barna með gigt

Ásrún Sara Kristjánsdóttir útskrifaðist úr Langholtsskóla á fimmtudaginn.
Ásrún Sara Kristjánsdóttir útskrifaðist úr Langholtsskóla á fimmtudaginn. Mynd:heimasíða Langholtsskóla

„Hugmyndin kviknaði þegar ég var að tala við vinkonu mína sem er einnig með gigt um þennan sjúkdóm og við vorum sammála um að það vanti fræðslu um hann,“ segir Ásrún Sara Kristjánsdóttir, en myndband sem hún gerði um gigt sem vorverkefni úr Langholtsskóla vakti mikla athygli á útskriftarathöfn skólans síðastliðinn fimmtudag.

„Ég byrjaði að pæla mjög mikið í þessu og svo þegar vorverkefnið hófst, þar sem við megum þannig séð gera hvað sem er, datt mér í hug að gera heimildarmynd um gigt.“

Í myndbandinu fjallar Ásrún, sem er sjálf með gigt, um sjúkdóminn og hinar ýmsu gerðir af honum. Jafnframt er skoðað hvernig gigt hefur áhrif á daglegt líf þeirra fjölmörgu sjúklinga sem eru með sjúkdóminn. 

Fjórir viðmælendur birtast í myndbandinu, en það er Ásrún sjálf, tvær vinkonur hennar sem eru einnig með gigt og hjúkrunarfræðingur. Góð innsýn fæst í líf stúlknanna sem kljást við sjúkdóminn á hverjum degi.

Að sögn Ásrúnar fólst mikil vinna í gerð myndbandsins. „Þetta var mjög krefjandi en líka mjög skemmtilegt. Ég hefði alveg getað tekið mér margar vikur í viðbót við þetta.“

Ásrún var dúx 10. bekkjar í Langholtsskóla með meðaleinkunnina 9,62. Í haust stefnir hún að því að hefja nám við Kvennaskólann í Reykjavík. 

Styttri útgáfu af heimildarmyndbandinu má sjá hér að neðan.

mbl.is