„Þá varð ég bingódrottningin“

Alda Grave.
Alda Grave.

„Ég hefði getað skrifað endalaust um þetta en ég þurfti að takmarka mig. Mér fannst mjög skemmtilegt að reyna að skrifa um sögu bingós á Íslandi, það hefur aldrei verið gert,“ segir Alda Grave, nemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands sem skrifaði BA-ritgerð um bingóið í Vinabæ. 

Hugmyndina að því að fjalla um Vinabæ í ritgerðinni sinni, fékk Alda þegar hún heyrði útvarpsauglýsingu frá Vinabæ. „Þjóðfræði er svo fjölbreytt að mér datt í hug að ég gæti nýtt vinabæ einhvern veginn í BA verkefnið mitt. Ég fór oft og mörgum sinnum í heimsókn, það var svolítið erfitt að afmarka nákvæmlega hvað ég ætlaði að skrifa um, en ég fór oft og mörgum sinnum í vettvangskannanir og svo benti vinkona mín mér á stelpu sem var að vinna þarna sem ég tók viðtal við. Hún benti mér svo á aðra konu sem hafði unnið þarna til fjölda ára og hún gat vísað mér á fólk sem stundað hefur Vinabæ í mörg ár og kalla mætti fastagesti,“ segir Alda. 

Félagsskapurinn, ekki vinningarnir

Alda segir niðurstöðu ritgerðarinnar vera að það sé aðallega félagslegi þátturinn sem dregur fólk í Vinabæ. „Það kom mér mikið á óvart. Miðað við það sem mínir viðmælendur sögðu þá er það eiginlega bara 100% félagslegi þátturinn sem fólkið sækir í. Fyrirfram hélt ég það væru aðallega vinningarnir.“

Stærsti hluti þeirra sem spila bingó í Vinabæ eru fastagestir að sögn Öldu. Mestmegnis er um að ræða eldra fólk eða einstæðinga, en inni á milli má sjá yngra fólk. Flest þeirra spila tvisvar í viku, en leikið er á miðvikudögum og sunnudögum. Upphaf Vinabæjar má rekja til ársins 1982 þegar Stórstúka Íslands hélt fyrsta bingóið sitt í Glæsibæ. Flutti það svo í eigið húsnæði í Vinabæ árið 1990. 

Ekki setjast í vitlaust sæti

Mikil hefð ríkir í bingóinu í Vinabæ. „Þarna hittast aðallega einstaklingar sem hafa kynnst á staðnum. Fólkið á sín sérstöku sæti og það er haldið í hefðirnar. Það er ekki vel séð ef þú sest í vitlaust sæti,“ segir Alda. Hún fór og heimsótti Vinabæ og segist hafa fengið fínar móttökur. „Sumir tala um að þeir fái kalt loft frá fastagestunum og segjast vinir mínir sem hafa farið með mér upplifa það þannig. Sjálf upplifi ég það þó ekki þannig. Mér fannst þetta mjög skemmtilegur hópur og áhugavert að kanna hann.“

Sumir fastagestirnir höfðu þó á orði í viðtölunum við Öldu, að þeir séu hægt og rólega að fá leið á þessu. „Þau töluðu nokkur um að það væri bráðum komið gott. Ég veit ekki alveg hvort þau hafi meinað það en sumir eru þó búnir að minka bingóspilið niður í eitt kvöld í viku.

Ritgerð Öldu ber heitið „Þá varð ég bingódrottningin“: Rannsókn á bingóinu í Vinabæ. Tilvitnunin í fyrirsögninni er frá einum viðmælanda Öldu. „Hún sagðist hafa farið oft í bingó og aldrei unnið neitt. Svo fór hún í bingóið í Vinabæ þá vann hún loksins og við það varð hún „bingódrottningin,“ og hefur nú mætt þangað í mörg ár. 

Bingó er haldið í Vinabæ alla miðvikudaga og sunnudaga kl. 19:45, en þó ekki næsta sunnudag, sem er Hvítasunnudagur vill Alda hvetja alla til þess að mæta og upplifa bingóið. 

Fyrsta bingó Stórstúku Íslands var auglýst í Morgunblaðinu 12. des. …
Fyrsta bingó Stórstúku Íslands var auglýst í Morgunblaðinu 12. des. 1982 Mynd/Morgunblaðið
mbl.is