Nafnar með doktorspróf frá MIT

Sigurður Pétur og Sigurður Örn
Sigurður Pétur og Sigurður Örn

Loftgæði í stórborgum og umhverfisvænir virkjunarkostir eru á meðal þess sem Sigurður Pétur Magnússon rannsakaði í doktorsnámi í umhverfis- og byggingaverkfræðideild MIT-háskólans í Cambridge við Boston.

Sigurður útskrifaðist úr doktorsnáminu á dögunum en meðfram rannsóknarverkefni sínu vann hann með orkufyrirtæki við þróun á tækni við að virkja sjávaröldur. „Slík tækni er enn á þróunarstigi en gæti orðið næsta stig í endurnýjanlegri orkuframleiðslu hjá strandríkjum eins og Íslandi þegar búið verður að virkja svo til alla vindstrengi á landi,“ segir Sigurður.

Nafnar í virtum háskólum

Athygli vakti þegar nafnarnir Friðrik Ársæls­son og Friðrik Árni Friðriks­son Hirst út­skrifuðust með LL.M.-gráður frá laga­deild Har­vard-há­skóla í vor en til tíðinda má telja að nafni Sigurðar Péturs, Sig­urður Örn Aðal­geirs­son, lauk einnig doktorsprófi frá MIT í vor.

Nafnarnir voru málkunnugir áður en þeir fóru út og voru á sama tíma í verkfræðinámi á Íslandi. Það var algjörlega frábært að hafa Sigga Örn hérna í skólanum úti á sama tíma. Við stefndum alltaf báðir að því að klára námið þetta vorið," segir hann. Þeir stunduðu íþróttir mikið saman og gátu þannig fylgst vel með ganginum í doktorsverkefnunum hvor hjá öðrum og ýtt hvor á annan ef verkefnið þótti ganga of hægt.

Tengir námið við raunveruleg vandamál

Doktorsverkefni Sigurðar Péturs snerist um að búa til líkan til að spá fyrir um loftgæði í stórborgum og áætla hvaða þættir séu ríkjandi við að ákvarða loftgæði.

„Það sem vakti áhuga minn á þessu verkefni er að það snýst um að tengja saman notkun á reiknilíkönum við raunverulegt heilbrigðisvandamál en Alþjóðlega-heilbrigðisstofnunin skilgreinir loftmengun sem stærsta einstaka umhverfisáhættuþáttinn fyrir almenning í stórborgum,“ segir hann og bendir á að vandamálið eigi sérstaklega við í stórborgum í Asíu þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur í kolaverksmiðjum sem oft eru staðsettar nálægt eða í þessum borgum.

Öflugt félagslíf í Boston

Sigurður útskrifaðist með BSc-gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands vorið 2008 og hóf nám í MIT ári síðar. Hann segir fyrstu tvö árin í náminu hafa verið sérstaklega krefjandi þar sem nauðsynlegt er að taka mörg námskeið meðfram rannsóknum.

„Þá eru alls konar skilyrði og hæfnispróf sem maður þarf að hafa staðist áður en maður er tekinn inn í doktorsnámið sjálft. Efir að maður hefur verið samþykktur í það þá verður allt mun frjálslegra og snýst að mestu leyti um að hafa sjálfsaga og áhuga,“ segir Sigurður.

Hann segir félagslífið í skólanum og jafnframt á Bostonsvæðinu öllu vera mjög gott. „Í Boston eru margir aðrir háskólar sem leiðir til þess að borgin er full af ungu og skemmtilegu fólki. Ég sótti mest í íþróttaklúbbana og hef meðal annars stundað box, skvass og götuhjólreiðar ásamt því að ég spilaði á innanhússkólamóti í Harvard síðastliðinn vetur.“

Ekki á leiðinni heim strax

Sigurður segist ekki alveg tilbúinn að sleppa akademíska frelsinu og er búinn að ráða sig í rannsóknar- og leiðbeinandastöðu í MIT þar sem hann verður að vinna að verkefni fyrir Masdar Institute í Abu Dhab sem stendur mjög framarlega í rannsóknum í umhverfis- og orkumálum. „Ísland kallar samt vissulega alltaf og þar eru mörg spennandi verkefni sem gaman væri að vinna að í framtíðinni, lík og til dæmis á norðurslóðum.“

Námið kostaði um 50 milljónir

Nám í Bandaríkjunum er mjög kostnaðarsamt og segir Sigurður að fimm ára námið hafi kostað um fimmtíu milljónir króna. „Ég var það heppinn að fá styrki fyrir náminu. Fyrsta árið var ég á styrk frá breska olíufyrirtækinu BP í gegnum MIT Energy Initiative en eftir það hef ég að mestu verið styrktur í gegnum rannsóknarsjóð í Singapore.“

Í kjölfarið hafði hann tækifæri til að ferðast til Singapore nokkrum sinnum á síðustu árum. „Það var algjörlega frábært og ég hef eytt samtals 6 mánuðum þar síðastliðin þrjú ár. Það gaf manni tækifæri til að kynnast fólki þar og einnig að ferðast um Suðaustur-Asíu.“

Hægt að vinna hvar sem er

Þegar litið er til baka yfir námið segir hann forréttindi að hafa fengið að kynnast fólki frá öllum heimshlutum. „Ég hef eignast vini frá hinum ýmsu löndum sem maður þekkti lítið áður en maður kom út, eins og Síle, Egyptalandi, Pakistan og Fillipseyjum.“ Þá segir hann gaman að sjá hversu mikil atvinnutækifæri skapist á svona stað, hvort sem hann eigi eftir að búa á Íslandi í framtíðinni eða annars staðar. 

„Maður myndar sér þannig tengsl að hægt er að vinna í verkefnum víðast hvar í heiminum. Ég hvet því alla íslenska nemendur til að sækja um skóla í Bandaríkjunum hafi þeir tök á en ég tel að menntunin heima gefi góðan undirbúning í nám hér úti.“

Boston séð frá MIT. Sigurður segir borgina vera æðislega.
Boston séð frá MIT. Sigurður segir borgina vera æðislega.
Sigurður ferðaðist nokkrum sinnum til Singapore þar sem hann var …
Sigurður ferðaðist nokkrum sinnum til Singapore þar sem hann var styrktur í gegnum rannsóknarsjóð þaðan.
mbl.is