19 ára fannst hengd í tré

Fjórar konur hafa verið hengdar í Uttar Pradesh undanfarnar tvær …
Fjórar konur hafa verið hengdar í Uttar Pradesh undanfarnar tvær vikur og þeim nauðgað. AFP

Nítján ára gömul stúlka fannst hangandi í tré í þorpi í Uttar Pradesh-ríki á Indlandi í morgun en hún hafði horfið af heimili sínu í gærkvöldi. Einungis sólarhringur er síðan önnur kona fannst hangandi í tré í sama ríki. 

Fjölskylda stúlkunnar segir að henni hafi verið nauðgað en réttarmeinarannsókn stendur yfir, segir í frétt BBC. 

Í gær fannst 44 ára gömul kona hengd í annarri sýslu í ríkinu og segir fjölskylda hennar að henni hafi verið nauðgað af hópi karlmanna. Enn er unnið að réttarrannsókn og hefur það ekki verið staðfest að um nauðgun hafi verið að ræða. 

Hinn 29. maí fundust tvær unglingsstúlkur látnar en þær höfðu orðið fyrir hópnauðgun og síðan hengdar í Uttar Pradesh. Þrír eru í haldi vegna morðsins og nauðgunarinnar auk tveggja lögreglumanna sem eru sakaðir um handvömm í starfi.

Alls búa 200 milljónir manna í Uttar Pradesh, sem er fjölmennasta ríki Indlands. 

mbl.is