Sakar lögregluna um hópnauðgun

AFP

Indversk kona segir að fjórir lögreglumenn hafi nauðgað sér inni á lögreglustöð í Hamirpur  í  Uttar Pradesh ríki í vikunni. Hún hafði komið á lögreglustöðina til þess að óska eftir því að eiginmaður hennar yrði látinn laus úr haldi.

Konan lagði fram kæru í gær en hún segir að sér hafi verið nauðgað eftir að hafa neitað að greiða mútur til þess að tryggja það að eiginmaður hennar yrði látinn laus úr haldi. 

Yfirmaður í lögreglunni segir að rannsókn málsins verði haldið áfram og að lögreglumennirnir sem tóku þátt í ódæðinu verði handteknir. 

Er þetta enn eitt málið sem kemur upp hvað varðar hrottalegar nauðganir og morð í fjölmennasta ríki Indlands, Uttar Pradesh. Er ríkisstjórinn, Akhilesh Yadav, undir miklum þrýstingi vegna þess hvernig staðið er að lög og rétti í ríkinu.

Í síðasta mánuði var tveimur stúlkum 12 og 14 nauðgað af hópi karlmanna í þorpinu sem þær bjuggu í. Þær voru síðan teknar af lífi án dóms og laga af ódæðismönnunum. Þær höfðu farið saman út til þess að létta á sér þar sem ekkert klósett er á heimili þeirra. 

Í gær fannst 45 ára gömul kona hangandi í tré en að sögn fjölskyldu hennar hafði henni verið nauðgað og hún síðan myrt. Fimm menn hafa verið yfirheyrðir vegna árásarinnar en ráðist var á konuna skammt frá heimili hennar. 

mbl.is