Vilja refsa Færeyingum áfram

mbl.is/Sigurgeir

Sam­tök sjó­manna inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa hvatt ríki sam­bands­ins til þess að leggj­ast gegn því að refsiaðgerðum gegn Fær­eyj­um verði aflétt. Gripið var til aðgerðanna síðasta sum­ar vegna ákvörðunar fær­eyskra stjórn­valda um að gefa út ein­hliða kvóta í norsk-ís­lenska síld­ar­stofn­inn. Þetta kem­ur fram á frétta­vefn­um Und­ercur­rent­news.com í dag.

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins hyggst aflétta refsiaðgerðunum á grund­velli sam­komu­lags við Fær­ey­inga. Á móti hafa fær­eysk stjórn­völd samþykkt að draga veru­lega úr síld­veiðum sín­um og hætta við kæru á hend­ur sam­band­inu á vett­vangi Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO) og á grund­velli haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna vegna refsiaðgerðanna. Fær­ey­ing­ar gáfu út ein­hliða kvóta upp á 105 þúsund tonn í fyrra en hafa nú gefið út 40 þúsund tonna kvóta.

Sjó­manna­sam­tök­in hafa hvatt Evr­ópu­sam­bandið til þess að samþykkja ekki ein­hliða kvóta Fær­ey­inga langt um­fram vís­inda­lega ráðgjöf. Þau benda á að þó Fær­ey­ing­ar hafi minnkað ein­hliða kvóta sinn þá sé hann eft­ir sem áður tvö­fald­ur á við það sem þeir hafi haft síðast þegar þeir hafi átt aðild að samn­ing­um um veiðarn­ar.

mbl.is