507 brautskráðust frá HR

507 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík í dag og fór athöfnin fram í Eldborgarsal Hörpu. Einn lauk doktorsnámi, 179 meistaranámi og 327 luku grunnnámi.

HR er nú orðinn stærsti tækniskóli landsins og útskrifar um 2/3 þeirra sem ljúka háskólanámi í tæknigreinum, helming þeirra sem ljúka námi í viðskiptafræði og þriðjung allra lögfræðinga.

Þorsteinn Baldur Friðriksson forstjóri Plain Vanilla flutti hátíðarávarp útskriftarinnar, en hann lauk sjálfur BSc í viðskiptafræði frá HR fyrir áratug, 2004. Fyrir hönd útskriftarnemenda flutti Ómar Berg Rúnarsson, ML í lögfræði, ávarp.

Fjármögnun íslenskra háskóla óviðunandi

Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík fjallaði í ávarpi sínu til útskriftarnema m.a. um fjármögnun háskóla á Íslandi í samanburði við Norðurlöndin. Hann benti á að hverjum nemenda í háskóla á Íslandi fylgi nú aðeins helmingur þess fjármagns sem fylgi nemenda á öðrum Norðurlöndum.

„Þetta er nokkuð sem verður að laga, svo Ísland verði samkeppnishæft í menntun og nýsköpun til framtíðar. Menntamál eru efnahagsmál, ekki velferðarmál, því fjárfesting í menntun skilar auknum hagvexti og bættri samkeppnishæfni,“ sagði Ari meðal annars.

Hann bætti við að stjórnvöld virðist vera að átta sig á þessum staðreyndum því nýlega hafi verið samþykkt aðgerðaráætlun vísinda- og tækniráðs um að verulega verði bætt í rannsóknarsjóði á næstu árum og unnið í skrefum að því að fjármögnun háskóla verði sambærileg við Norðurlöndnin.

„Enn er langt í land með að fjármögnun háskóla hér á landi sé viðunandi, en þetta er mikilvægt skref í rétta átt,“ sagði rektor HR.

mbl.is