Skiptar skoðanir eru um dauðarefsingar. Hank Skinner hefur setið á dauðadeild í um 20 ár í Texas og heldur enn fram sakleysi sínu. Israel Santana krefst þess að morðingi frænku hans verði tekinn af lífi. Hún var jarðsett í brúðarkjólnum en hún var myrt og henni nauðgað skömmu fyrir brúðkaup sitt. Anthony Graves sat átján ár í fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Þar af var hann tólf ár á dauðadeild. Í tvígang var komin dagsetning á aftöku hans.
Hank Skinner var árið 1995 fundinn sekur um að hafa kyrkt og barið sambýliskonu sína til bana og stungið tvo syni hennar einnig til bana á gamlárskvöld árið 1993. Hann hefur oftar en einu sinni komist hjá því að vera tekinn af lífi á síðustu stundu en hann heldur því fram að hann hafi ekki framið morðin. Skinner segist hafa verið út úr heiminum af áfengisneyslu og verkjalyfjum að hann hafi ekki haft líkamlega burði til þess að ráðast á þau.
Fjögur hár en bara eitt af Skinner
Allt frá árinu 2001 hefur Skinner krafist þess að gerð verði lífsýnarannsókn sem leiði í ljós að hann sé saklaus og að frændi þeirra myrtu hafi framið morðin. Fjögur ár fundust í hendi konunnar sem var myrt og voru þrjú þeirra úr óþekktum ættingja hennar en eitt af Skinner. Verjendur Skinners segja að ef rétt hafi verið staðið að rannsókn málsins á sínum tíma hefði Skinner aldrei verið dæmdur fyrir morðin vegna þess vafa sem er um hvort hann sé morðinginn eður ei.
Saksóknari bendir aftur á móti á að lífsýni úr Skinner hafi fundist á hnífnum sem notaður var við morðið á bræðrunum og á hnífnum hafi ekki fundist lífsýni úr neinum öðrum.
Rænt, nauðgað og skotin á flótta
Israel Santana, lögfræðingur í Houston, krefst þess að morðingi frænku hans, Alexandra Rendon, verði tekinn af lífi. Robert James Campbell var dæmdur til dauða fyrir morðið en hæstiréttur hefur hafnað beiðni hans um að fá upplýsingar um uppruna lyfjanna sem nota á við aftökuna sem fer fram á næstunni. Dagsetning á aftökunni liggur ekki fyrir þar sem verjendur hans reyna nú að fá dauðarefsingu hnekkt vegna þess að hann sé geðveikur.
Campbell árið 1991 dæmdur fyrir að hafa rænt, nauðgað og myrt Rendon sem var gjaldkeri í banka í Houston í janúar það sama ár.
Santana krefst hefndar fyrir frænku sína en hún var einungis tvítug að aldri þegar Robert James Campbell og félagi hans rændu henn, nauðguðu og myrtu.
Santana segir að sér sé sagt að fyrirgefa en hann geti ekki að því gert að honum finnist rétt að taka Campbell af lífi. „Ég trúi því að hann fái sína refsingu eftir dauðann. Ég tel að hann sé skrímsli af hinu illa vegna þess sem hann gerði. Ég finn til samúðar með fjölskyldu hans en hann sýndi enga miskunn, enga iðrun. Hann er skepna,“ segir Santana í viðtali við Houston Chronicle.
Campbell og Leroy Lewis rændu Rendon þar sem hún var að setja bensín í bifreið sína skammt frá heimili sínu um 11 leytið að kvöldi 3. janúar 1991. Tvímenningarnir óku með hana á fáfarinn stað þar sem þeir nauðguðu henni. Þeir sögðu henni síðan að hlaupa burtu en skutu hana á flóttanum. Það var Campell, sem var átján ára á þessum tíma, sem skaut hana. Hann hafði verið laus úr fangelsi í nokkra mánuði er hann framdi morðið.
Rendon ætlaði að ganga í hjónaband í apríl 1991 og var hún jörðuð í brúðarkjólnum sem hún hafði valið.
Munir í eigu Rendons fundust hjá Campbells síðar, svo sem fatnaður, úr og hringur. Lewis, sem einnig var átján ára, játaði aðild sína að glæpnum og var dæmdur í 35 ára fangelsi. Hann var látinn laus í maí 2012 eftir að hafa afplánað níu ár.
Robert Owen er lögmaður Campbells og einnig Skinner en hann er þekktur fyrir að verja fanga sem eru dæmdir til dauða. Hann líkt og margir aðrir telja að Campbell eigi ekki að vera tekinn af lífi heldur gert að afplána lífstíðardóm.
Slapp í tvígang undan náðarsprautunni
Meðal þeirra sem kemur fram í myndskeiðinu er Anthony Graves sem sat í átján ár í fangelsi, þar af 12 ár á dauðadeild, en var látinn laus þegar í ljós kom að hann var saklaus af glæp þeim sem hann var dæmdur fyrir.
Graves berst nú fyrir því að saksóknarinn sem fékk hann dæmdan til dauða verði látinn svara til saka fyrir afglöp í starfi. Fallist hefur verið á beiðni hans um að störf saksóknarans, Charles Sebesta, verði rannsökuð með tilliti til afglapa í starfi. Graves segir að það hafi tekið hann 18 og hálft ár að komast heim aftur, tveimur aftökudagsetningum síðar. Allt vegna manns sem misnotaði stöðu sína.
Graves og Robert Earl Carter voru árið 1994 dæmdir til dauða fyrir að hafa myrt 45 ára gamla konu, unglingsdóttur hennar og fjögur barnabörn. Carter var tekinn af lífi árið 2000 en nokkrum vikum fyrir aftökuna bar hann vitni um að Graves hefði hvergi komið nærri morðunum. Á dánarbeðinu skrifaði hann undir yfirlýsingu sem sagði að Anthony Graves hafi hvergi komið nærri og að hann hefði logið fyrir rétti.
Í tólf ár sat Graves á dauðadeild en árið 2006 var hann fluttur af dauðadeild eftir dóm áfrýjunardómstóls. Árið 2010 felldi annar saksóknari niður ákærur á hendur honum og sagði að Graves væri ekki sekur. Í viðtali við Houston Chronicle á þeim tíma sagði saksóknarinn að Graves væri saklaus. „Það er ekkert sem tengir Anthony Graves við glæpinn. Ég gerði þetta þar sem þetta var það eina rétta.“