Kannabis er algengasta eiturlyfið meðal Evrópubúa en 76 milljónir íbúa álfunnar hafa prófað kannabis um ævina. Á Íslandi benda rannsóknir til þess að 25-36% Íslendinga á aldrinum 18-74 ára, hafi prófað að reykja kannabis. Þriðjungur fanga á Íslandi situr inni fyrir fíkniefni og algengast er að fólk prófi kannabisefni fyrst á aldrinum 18–19 ára en samkvæmt könnun Landlæknisembættisins frá 2012 prófaði um 61% svarenda kannabisefni fyrir 20 ára aldur, þar af um 13% á grunnskólaaldri (15 ára og yngri).
Bjórinn tók við af sterku áfengi sem helsti vímugjafa ungs fólks þegar hann var leyfður á Íslandi og miðað við umræðuna er eins og kannabis hafi tekið við af bjórnum sem helsti vímugjafi ungmenna.
Nánast öll ungmenni sem fara í meðferð eru háð kannabis
Flest þeirra ungmenna sem fara í meðferð á Vogi eru kannabisfíklar og er nánast undantekning ef ungt fólk sem fer í meðferð er ekki háð kannabis. En á sama tíma hefur ungu fólki sem leggst inn á Vog fækkað eftir nokkurra ára fjölgun í kringum aldamótin, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, yfirlæknis á Vogi.
Hún segir að unglingadeild hafi verið sett á laggirnar á Vogi í kringum aldamótin enda orðin veruleg þörf á úrræðum sniðnum að þörfum fólks undir tvítugu.
„Kannabis er stærsta vandamálið hjá unga fólkinu sem kemur hingað í meðferð en um leið erum við að sjá mun fleiri kannabisfíkla sem eru komnir yfir þrítugt og spurning hvort það sé kynslóðin sem var ung á tíunda áratugnum þegar kannabisneyslan var sem mest hér,“ segir Valgerður.
Örvandi efni helsta vandamálið ásamt kannabis
En helsta vandamálið hér ásamt kannabis er að sögn Valgerðar neysla á örvandi efnum eins og amfetamíni, rítalíni og MDMA (methylendioxymetamfetamin – virka efnið í e-töflum). Hérlendis hefur dregið úr neyslu kókaíns, að minnsta kosti meðal þeirra sem koma á Vog, frá hruni enda efnið mjög dýrt.
Að sögn Valgerðar glímir yfir helmingur þeirra sem leggjast inn á Vog við fíkniefnaneyslu þrátt fyrir að áfengi sé helsta orsök þess að fólk fari í meðferð. Konur eru orðnar hlutfallslega fleiri sem fara í meðferð en áður eða um þriðjungur þeirra sem leita sér hjálpar vegna vímuefnavanda. Algengara er hjá þeim heldur en körlum að vera í fleiri tegundum vímuefna og þó svo að margar þeirra noti kannabisefni þá eru þær einnig í áfengis- og lyfjaneyslu á meðan ungir karlar virðast helst neyta kannabisefna.
7% þjóðarinnar hafa farið í meðferð
Hún óttast að aðgengi Íslendinga að meðferðarúrræðum geti versnað ef ekkert verður að gert. „Undanfarna áratugi hefur verið gott aðgengi að vímuefnameðferðum á Íslandi sem sést kannski best í því að 7% íslensku þjóðarinnar hafa farið í meðferð,“ segir Valgerður.
Því miður sé óvíst með framhaldið þar sem framlög ríkisins til Vogs undanfarin ár duga ekki til sjúkrarekstursins og samtökin SÁÁ hafi brúað of stórt fjárhagslegt bil undanfarin ár. Því hefur verið dregið úr innlögnum síðasta hálfa árið. Því hafi þeim fækkað sem komast í meðferð.
Kannabisefni eru algengustu ólöglegu vímuefnin á Íslandi en í meðferð er örvandi efna fíkn álíka algeng og kannabis. Kannabisefnum er skipt í þrjá undirflokka; hass, maríjúana (gras) og hassolíu. Kannabisefni eru oftast reykt í sígarettum eða þar til gerðum pípum. Virka efnið í kannabis kallast THC og þegar kannabis er reykt kemst THC hratt frá lungum í blóðrásina sem dreifir efninu áfram til heilans og annarra líffæra líkamans. Efnið hefur áhrif á svokallaða kannabínóðviðtaka og setur af stað viðbrögð sem leiða að lokum til breytts hugarástands neytandans og hann fer í vímu, að því er segir á fræðsluvefnum Bara gras.
Lögleiðing þýðir aukna neyslu
Mikil umræða hefur verið um lögleiðingu kannabis og skaðsemi þess undanfarin ár og um áramótin var Colorado fyrsta ríki Bandaríkjanna til þess að heimila maríjúanareykingar. Valgerður segir að allt sem auki aðgengi vímuefna sé varhugavert. Reynsla annarra landa sýni að við lögleiðingu þá aukist neyslan og á sama tíma eykst hættan á slysum. Eins færist neyslan neðar í aldri líkt og hefur gerst þegar áfengiskaupaaldur hefur verið lækkaður.
„Lögleiðing þýðir aukna neyslu það er ekkert flóknara en það og þessi umræða um að heimila notkun marijúana í lækningaskyni (medicalmarijuana) er eitthvað sem engin læknasamtök styðja. Þau ríki sem hafa tekið upp slíka löggjöf eru að glíma við fleiri vímuefnavandamál en áður. Til að mynda aukna neyslu fíkniefna meðal ungs fólks. Það er ekkert sem bendir til þess að við myndum ráða við þessi fíkniefni á meðan við höfum ekki einu sinni tök á þeim vímuefnum sem eru lögleg í dag, svo sem rítalíni, áfengi og tóbaki o.fl.,“ segir Valgerður.
Í Bandaríkjunum er marijúana leyft í lækningaskyni í 22 ríkjum Bandaríkjanna og í nokkrum þeirra hefur efnið verið leyft í 20 ár. Í flestum þessara ríkja er neysla á marijúana sem vímuefni ekki skilgreind sem glæpur. Markaðurinn er mjög stór, samkvæmt því sem kom fram í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í janúar. Salan á marijúana í lækningaskyni nam 1,4 milljörðum Bandaríkjadala á nýliðnu ári, eða rúmum 160 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að hún aukist um 60% í ár, eða í 2,34 milljarða dala, eða 270 milljarða króna.
Á vef SÁÁ segir að greinilegt sé að veruleg viðhorfsbreyting meðal neytenda er samfara aukinni kannabisneyslu eða jafnvel undanfari hennar eða orsök.
„Nú er algeng sú skoðun að efnin séu skaðlítil eða skaðlaus og er slíku viðhorfi haldið við með upplýsingum sem stangast á við nýjustu vísindarannsóknir og þekkingu. Þessar röngu upplýsingar berast ungu fólki í gegnum fjölmiðla og Netið og koma frá þeim sem berjast fyrir auknu frjálsræði varðandi kannabis. Kannabisefni eru einu ólöglega vímuefnin á Vesturlöndum sem eiga sér aðdáendahóp, „kannabisbullurnar“ sem berjast skipulega fyrir lögleiðingu þeirra.
Kannabis ryður á ýmsan hátt brautina fyrir önnur ólögleg vímuefni eins og LSD, amfetamín og kókaín. Þjóðfélagslega er kannabis jafnan fyrsta ólöglega vímuefnið sem notað er og neytandinn lærir lögmál vímuefnamarkaðarins þegar hann kaupir sér efnið og kynnist þannig sölumönnum sem seinna selja honum önnur vímuefni. Með daglegri notkun kannabis venjast neytendur á að leysa flest vandamál sín með því að nota vímuefni og það er grunnurinn sem önnur ólögleg vímuefnafíkn byggist á.
Kannabisefni valda ein og sér alvarlegum sjúkdómi þar sem neytandinn verður líkamlega háður efninu. Í afeitrun fá sjúklingar veruleg fráhvarfseinkenni sem lýsa sér í svefntruflunum, kvíða og óróleika,“ að því er segir á vef SÁÁ.
Halda að þær fitni ekki ef þær nota dóp í stað áfengis
„Kannabis nánast daglega, örvandi efnum skolað niður með bjór um helgar.“ Þessi lýsing er þekkt meðal hóps ungmenna í dag og jafnvel að stelpur noti frekar eiturlyf heldur en áfengi svo minni hætta sé á að þær fitni. Aðgengi að kannabis er oft auðveldara heldur en að áfengi enda spyrja fíkniefnasalar yfirleitt ekki um persónuskilríki. Jafnframt er ekki mikill verðmunur á kannabis og áfengi.
Spurð um þetta segir Valgerður að miðað við þær tölur sem séu fyrirliggjandi varðandi fíkniefnaneyslu ungmenna þá virðist hún vera að dragast saman og þrátt fyrir að stúlkur noti fíkniefni þá þýði það ekki endilega grannt holdafar. En kannabisneysla sé staðreynd hjá ungu fólki og að það megi ekki gleyma því að kannabisfíkn er langvinn og erfið viðureignar þar sem erfitt er að losna út úr neyslunni þó svo að fjölmörg dæmi séu um að fólki takist það.
„Það er mjög algengt að þeir sem nota kannabis reglulega leiðist út í að nota önnur sterkari fíkniefni og er yfirleitt þannig að slík efni fylgja með kannabisneyslu,“ segir Valgerður en talið er að byrji fólk að reykja kannabis fyrir sautján ára aldur eru líkurnar á því að verða fíkill einn á móti þremur.
„Um leið og umræðan um fíkniefni verður jákvæð þá eykst neyslan og það sem við vitum að hluti þeirra sem neyta verða háðir og glíma við að reyna að losa sig úr viðjum vímunnar,“ segir Valgerður.
Skert kynlífsgeta og minni framleiðsla á sæðisfrumum
Á vef SÁÁ og á vef Landlæknis er bent á ýmsar aukaverkanir kannabisneyslu. Neytandinn getur fengið mjög óþægilega kvíða- og óttatilfinningu – fyllst skelfingu gagnvart umhverfi og fólki. Allt verður skyndilega ógnvekjandi. Stundum getur hass leitt til geðtruflana sem geta orðið það alvarlegar að beita þarf lyfjameðferð og jafnvel innlögn á geðdeild. Hæfileikinn til að greina ljósmerki og fylgja hreyfingu skerðist og þess vegna fara akstur og hassneysla alls ekki saman, ekki frekar en áfengisneysla og akstur. Hjá körlum verður vart við skerta kynlífsgetu og framleiðslu á sæðisfrumum.
Eðlilegt að foreldrar séu grunlausir lengi framan af
Að sögn Valgerðar eru það mjög oft foreldrar og aðrir sem eru nátengdir sem fá ungmenni til að leita sér aðstoðar á Vogi vegna kannabisneyslu. Hún segir að regluleg neysla leyni sér ekki ef vel er að gáð, þó það sé algjörlega eðlilegt að foreldrar séu grunlausir lengi framan af neyslu unglinga. Til að mynda fer námsárangur þeirra hratt niður á við enda dregur kannabisneysla úr hæfileikanum til að læra þar sem það skaðar stöðvar í heilanum sem stýra minni, einbeitingu og framkvæmdasemi.
„Blóðhlaupin augu og stór sjáöldur, þurrkur í munni, hraður hjartsláttur. Neytandinn verður einnig þreyttur, sljór og klunnalegur í hreyfingum. Oft er mikil þörf fyrir sælgæti; græðgisát. Áhrifanna gætir yfirleitt í 3-4 tíma. Hassið er lengi í líkamanum og í prófum hefur það mælst í allt að 2-4 vikur eftir notkun,“ segir á vef Landlæknis.
Þar kemur fram að kannabisneysla er vanabindandi og eftir daglega neyslu í u.þ.b. mánuð koma fráhvarfseinkenni þegar neyslu er hætt. Þau eru einkum pirringur, eirðarleysi, skapsveiflur, ógleði, svitaköst, niðurgangur, herpingur í vöðvum eða maga ásamt svefntruflunum. Eftir stöðuga og jafna neyslu verður neytandinn sljór, kærulaus, framtakslaus og á í erfiðleikum með einbeitingu. Langtímaneysla eykur líkurnar á þunglyndi og annarri geðveiki.
Fjórum sinnum líklegri til að greinast með geðklofa
Í lokaverkefni í BA-námi í félagsráðgjöf frá því í fyrra fjalla þær Sara Sif Sveinsdóttir og Sunneva Einarsdóttir um skaðsemi af völdum kannabisneyslu. Þær vísa í sænska rannsókn á tengslum á milli kannabisneyslu og geðklofa. Þátttakendur voru 50.465 og tók rannsóknin 15 ár. Niðurstöður leiddu í ljós að þeir sem höfðu neytt kannabis fyrir 18 ára aldur voru tvisvar til fjórum sinnum líklegri til þess að greinast með geðklofa en þeir sem ekki höfðu neytt kannabis. Einnig kom í ljós að þeir sem neyttu kannabis á hverjum degi voru í meiri hættu á því að greinast með geðklofa en þeir sem neyttu efnisins einu sinni til tvisvar í viku. Svipuð niðurstaða var á annarri rannsókn sem var gerð á Nýja-Sjálandi.
Sjötíu og átta prósent Íslendinga eru andvíg því að neysla kannabis verði gerð lögleg hér á landi, en 36% segjast hafa prófað kannabisefni einhvern tíma á ævinni. Þetta kemur fram í könnun á neyslu kannabisefna og annarra ólöglegra vímuefna á Íslandi og á viðhorfi til lögleiðingar kannabisneyslu sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Embætti landlæknis árið 2012.
Í könnuninni kemur fram að þetta séu heldur færri en árið 2003 þegar 87% svarenda voru andvíg því að neysla kannabis verði gerð lögleg á Íslandi.
Þá kemur fram að 63% Íslendinga á aldrinum 18–67 ára hafa aldrei prófað nein ólögleg vímuefni. Af þeim sem hafa prófað ólögleg vímuefni hafa flestir prófað kannabis og langflestir fyrir meira en 12 mánuðum eða prófað 1–2 sinnum á síðustu 12 mánuðum.
Um 13% svarenda sögðust hafa prófað önnur ólögleg vímuefni en kannabis. Tæplega 11% höfðu prófað amfetamín en næstflestir kókaín, eða 9%. Karlar höfðu prófað önnur vímuefni en kannabis í aðeins meira mæli en konur og yngri svarendur frekar en þeir sem eldri eru. Einnig kom fram að því yngra sem fólk var þegar það prófaði kannabisefni fyrst því meiri líkur voru á að það hefði prófað önnur vímuefni.
Karlar hlynntari því að heimila kannabisneyslu en konur
Landlæknisembættið segir að munur sé á viðhorfi gagnvart kannabisneyslu eftir hópum. Karlar eru hlynntari því að neysla kannabis sé gerð lögleg heldur en konur, þeir sem eru yngri, íbúar höfuðborgarsvæðisins og þeir sem telja sig vera við sæmilega eða lélega andlega og líkamlega heilsu eru hlynntari lögleiðingu en samanburðarhópar. Þá eru þeir sem hafa prófað kannabisefni og önnur ólögleg vímuefni hlynntari lögleiðingunni og þeir sem hafa notað lyfseðilsskyld lyf á annan hátt en samkvæmt læknisráði eru einnig hlynntari henni en þeir sem aldrei hafa prófað slík lyf. Karlar, yngra fólk, þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem meta líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega eru líklegri en aðrir til þess að hafa prófað kannabis.
Þá hafa þeir einnig frekar prófað kannabis sem hafa prófað önnur vímuefni eða neitt lyfja vegna kvíða, ótta eða þunglyndis síðustu 12 mánuði áður en könnunin var lögð fyrir. Langstærstur hluti þeirra sem hafa prófað kannabisefni (tæplega 82%) notuðu þau ekki á síðustu 12 mánuðum áður en könnunin var gerð. Um 11–12% þeirra sem hafa prófað kannabis notuðu efnið 1–2 sinnum á síðustu 12 mánuðum og 3–4% 20 sinnum eða oftar.
Brýnt að auka forvarnir
Algengast er að fólk prófi kannabisefni fyrst á aldrinum 18–19 ára en samkvæmt könnuninni frá 2012 prófaði um 61% svarenda kannabisefni fyrir 20 ára aldur, þar af um 13% á grunnskólaaldri (15 ára og yngri).
Valgerður segir að það megi aldrei sofna á verðinum og líta á kannabisneyslu sem eðlilegan hlut því það verði hún aldrei og það sjáist best á því að þau ungmenni sem þurfa að fara í meðferð hafa nánast öll ánetjast kannabisreykingum.
Í fyrirlestri sem Helgi Gunnlaugsson prófessor flutti á Þjóðarspeglinum í fyrra kom fram að mælingar sýndu að heldur fleiri hefðu prófað kannabisefni 2013 en 1997 og 2002. Um það bil fjórðungur Íslendinga á aldrinum 18-74 ára segist árið 2013 hafa prófað kannabis, algengara meðal karla og yngra fólks en annarra. Innan við tíu prósent segjast hafa prófað efnið oftar en tíu sinnum sem bendir til vananeyslu að minnsta kosti tímabundið. Á bilinu 2-3 prósent viðurkenna neyslu síðustu sex mánuði fyrir mælinguna sem hugsanlega bendir til virkrar neyslu hjá þessum hópi. Samkvæmt niðurstöðunum mætti því áætla að fjöldi virkra fullorðinna neytenda sé allt að tíu þúsund hér á landi árið 2013. Þessi hópur virðist ekki hafa stækkað mikið á rannsóknartímabilinu þó fleiri segist hafa prófað efnin en áður.
„Brýnt er að auka mjúkar aðgerðir og forvarnir. Fræðsla verður að vera öflug þar sem efnunum og verkan þeirra er lýst á yfirvegaðan og fordómalausan hátt og mið tekið af öllum ávana- og vímuefnum, ekki síst tóbaki og áfengi. Það er varhugavert að spyrða saman öll ólögleg fíkniefni og segja sem svo að þau séu jafnhættuleg. Með því væri þeim óbeinu skilaboðum komið til þeirra ungmenna sem þegar nota kannabisefni, að kannski sé bara allt í lagi að prófa líka sterkari efni einsog amfetamín og heróín, þetta sé allt sami grauturinn. Svo er ekki þótt öll efnin séu varasöm,“ sagði Helgi í fyrirlestri sínum sem hægt er að lesa hér.