Lögreglan verði skilningsríkari

AFP

Ríkisstjóri indverska héraðsins Uttar Pradesh lýsti því yfir í dag að hann hygðist taka á hrinu nauðgana á svæðinu með þjálfun skilningsríkara og tilfinninganæmara lögregluliðs.

Hrottalegar nauðganir í héraðinu hafa vakið mikla reiði almennings og hefur myndast nokkur þrýstingur á ríkisstjórann Akhilesh Yadav að segja af sér vegna dugleysis við að uppræta glæpina. Ýmsir stjórnmálamenn á svæðinu hafa jafnframt látið hafa eftir sér mjög umdeild ummæli um nauðganir og í mörgum tilfellum gert lítið úr alvarleika þeirra.

Yfirmaðurinn verður kvenkyns

Nú hyggst Yadav hins vegar snúa við blaðinu, en hann vill koma á laggirnar sérstakri deild innan lögreglunnar sem rannsakar eingöngu glæpi gegn konum. Hann ítrekaði að yfirmaður deildarinnar yrði kvenkyns og glæpir gegn konum yrðu ávallt rannsakaðir undir eins. Yadav vill einnig setja á stofn sérstaka flýtimeðferð innan réttarkerfisins þegar kemur að umræddum glæpum.

Yadav er yngsti maðurinn til þess að gegna starfi ríkisstjóra í 200 milljón manna héraðinu Uttar Pradesh, en hann er 40 ára gamall. Nauðgun og morð á tveimur systrum sem hengdar voru í tré vakti mikinn óhug fyrir nokkrum vikum auk fjölmargra annarra hrottalegra brota. Fyrir þremur dögum fannst síðan nítján ára stúlka hangandi í tré, en henni hafði jafnframt verið nauðgað. 

Ríkisstjórinn Akhilesh Yadav
Ríkisstjórinn Akhilesh Yadav Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is