Fundur stendur nú yfir í húsakynnum Fjármálaeftirlitsins þar sem ræddar eru nýjar reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál. Fjármálaeftirlitið boðaði til fundarins með vátryggingamiðlurum, vátryggingaumboðsmönnum og söluumboðum erlendra vátryggingafélaga hérlendis. Fulltrúar frá Seðlabanka Íslands eru auk þess viðstaddir fundinn, en hann hófst klukkan 14.
Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins segir markmið fundarins vera að ræða afstöðu Seðlabankans gagnvart starfsemi vátryggingamiðlara og umboðsmanna erlendra vátryggingafélaga hérlendis. Jafnframt verður farið yfir það hvernig hagsmunir neytenda verði best tryggðir.
Á fundinum munu fulltrúar Seðlabankans kynna nýjar reglur fyrir aðilum og svara tilfallandi spurningum er lúta að nýju reglunum. Fjármálaeftirlitið kom ekki að gerð hinna nýju reglna, en var hins vegar upplýst um vinnu Seðlabankans við þær.
Nýju reglurnar hafa skapað nokkra óvissu meðal aðila með erlendan sparnað, en spurningum um málið var svarað í frétt mbl.is fyrr í dag.
Frétt mbl.is: Spurt og svarað um lífeyristryggingar