Rætt við erlenda sérfræðinga

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnvöld ætla að ráða til sín erlenda ráðgjafa sem gert er ráð fyrir að hafi beina aðkomu að því að afnema gjaldeyrishöftin. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og ennfremur að íslenskir embættismenn hafi rætt við ýmis ráðgjafarfyrirtæki í London í gær og í dag.

Samkvæmt fréttinni eru fjórir íslenskir embættismenn staddir í London í þeim tilgangi og hafa rætt við 10-12 fyrirtæki á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði en sum þeirra hafa verið stjórnvöldum í Grikklandi innan handar vegna efnahagserfiðleika landsins. Þá hafi íslenskum stjórnvöldum þegar borist tilboð frá erlendum ráðgjafarfyrirtækjum. Stefnt sé að því að ganga frá slíkum samningum á allra næstu vikum.

Heimildir Ríkisútvarpsins hermi ennfremur að erlendir sérfræðingar fari strax í þá vinnu í júlí að móta áætlun um losun haftanna í samráði við íslenska sérfræðinga. Markmiðið sé að vinna sérfræðinganna skili tillögum um afnám haftanna og að erlendu sérfræðingarnir hafi beina aðkomu að framkvæmdinni.

mbl.is