Fyrsta aftaka ársins

Aftaka í Íran en í Japan var dauðadæmdur maður hengdur …
Aftaka í Íran en í Japan var dauðadæmdur maður hengdur í morgun. Amnesty International

Fyrsta aftakan í Japan það sem af er ári fór fram í morgun er Masanori Kawasaki, 68 ára, var hengdur. Er þetta níunda aftakan í Japan frá því ríkisstjórn Shinzo Abe komst til valda í desember 2012.

Kawasaki var dæmdur fyrir að hafa stungið þrennt til bana, þar á meðal þriggja ára gamla stúlku, í svefni í Kagawa árið 2007. Haðfi hann brotist inn á heimili fólksins. 

Dómsmálaráðherra Japans, Sadakazu Tanigaki, sagði við fréttamenn í dag að málið hafi verið sérstaklega grimmilegt og hann hafi fyrirskipað aftökuna að vel athuguðu máli. 

Rannsóknir sýna að mikill meirihluti Japana er fylgjandi dauðarefsingum. Alls eru 129 á dauðadeild í Japan en enginn var tekinn þar af lífi árið 2011. Var það fyrsta árið í tæpa tvo áratugi sem engum dauðadómum var framfylgt í landinu.

Masanori Kawasaki var ekki eini japanski fanginn á dauðadeild sem lést í dag því sextugur maður sem dæmdur hafði verið til dauða lést í morgun eftir að hafa lent í öndunarerfiðleikum. Sá maður er fyrrverandi lögreglumaður sem var dæmdur til dauða árið 2004 fyrir tvö mannrán og morð, á árinu 1986 og 1989.

mbl.is