Móðirin hvött til að deyða barnið

Smriti Irani er nýr menntamálaráðherra Indlands. Þegar hún fæddist var …
Smriti Irani er nýr menntamálaráðherra Indlands. Þegar hún fæddist var þrýst á móður hennar að deyða hana, þar sem dætur væru byrði. AFP

Menntamálaráðherra Indlands uppljóstraði því í dag að móðir hennar hefði verið hvött til þess að deyða hana sem hvítvoðung, vegna þeirrar einföldu staðreyndar að hún var stúlka.

Slíkt er hlutskipti fjölda stúlkna á Indlandi, þar sem drengir eru af mörgum taldir blessun en stúlkur byrði. Smriti Irani var ein þeirra, samkvæmt því sem hún deildi með stúdentum í borgnni Bhopal í dag. Þar þakkaði hún móður sinni fyrir að láta ekki undan þrýstingi.

„Móðir mín var hugrökk og gerði ekki það sem fólk sagði henni, þess vegna stend ég hér á lífi fyrir framan ykkur í dag,“ sagði hún. Irani sagðist vilja segja eigin sögu sem dæmi þar sem nýkjörin ríkisstjórn Indlands, undir stjórn forsætisráðherrans Narendra Modi, hyggst nú skera upp herör gegn stúlknamorðum í landinu.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég segi frá því að þegar ég fæddist þá var móður minni bent á það að „beti to bojh hoti hai“ [dóttir er byrði] og að þess vegna ætti hún að drepa mig,“ sagði ráðherrann.

Vegna ólíkra kynjahlutverka í indversku samfélagi er víða litið svo á að drengir geti orðið fyrirvinnur fjölskyldunnar, á meðan stúlkur verði fjárhagsleg byrði, þar sem þær eiga ekki sömu möguleika til starfsframa og margar fjölskyldur þurfa að greiða með þeim heimanmund gangi þær í hjónaband.

Fóstureyðingar byggðar á vitneskju um kynið sem og morð á hvítvoðungum og ungum stúlkum hafa leitt til mikils kynjahalla hjá þjóðinni. Samkvæmt manntali ársins 2011 voru aðeins 914 stúlkur undir 6 ára aldri á móti hverjum 1000 drengjum. Á heimsvísu eru hlutföllin að jafnaði 952 stúlkur á móti 1000 drengjum.

Ríkisstjórnir síðustu ára hafa reynt með litlum árangri að breyta félagslegum viðhorfum gegn stúlkum. Ný ríkisstjórn ætlar þó að gera aðra tilraun til þess.

mbl.is