Sneiðmyndatækið enn bilað

Sneiðmyndatæki
Sneiðmyndatæki mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Varahlutur í tölvusneiðmyndatæki Landspítalans í Fossvogi, sem bilaði á fimmtudag, er ekki væntanlegur til landsins fyrr en í fyrramálið. Vonast var til að unnt yrði að gera við tækið í gær. Á meðan það er bilað þarf að flytja sjúklinga sem þurfa sneiðmyndatöku á Hringbraut og til baka.

mbl.is greindi frá því á föstudag að tölvusneiðmyndatækið væri bilað en vegna þess var mikið að gera í sjúkraflutningum hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem hafði aukabíl á vakt til að flytja sjúklinga frá bráðamóttökunni í Fossvogi yfir á Hringbraut í sneiðmyndatöku, og stundum til baka líka.

Pétur H. Hannesson yfirlæknir geislagreiningar í Fossvogi sagði ástandið mjög bagalegt. „Það eru ekki allt bráðatil­felli, en þetta kall­ar auðvitað á heil­mikla sjúkra­flutn­inga og er mjög slæm staða upp á ör­yggi þeirra sem eru bráðveik­ir og slasaðir.

Varahlutur var pantaður að utan þegar á fimmtudaginn var þegar ljóst var að tækið hefði bilað og var vonast til að hann kæmi til landsins á mánudagsmorgni. Í gær var hinsvegar ljóst að það myndi frestast til dagsins í dag og að sögn Péturs hefur það enn frestast og er varahlutarins ekki að vænta fyrr en í fyrramálið. Viðgerð mun þá hefjast um leið.

Sneiðmyndatækið bilaði síðast í október og var þá bilað í viku. Ástandið varð þá sérstaklega krítískt um tíma vegna þess að í vikunni miðri bilaði sneiðmyndatækið á Hringbraut einni og þurfti þá að senda bráðatilfelli í Orkuhúsið til sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Pétur segir lækna meta það svo að þörf sé á varatæki á Fossvogi, svo ekki þurfi að hefja sjúkraflutninga þegar bilun kemur upp. Ekki fékkst fjárveiting á síðustu fjárlögum til kaupa á slíku tæki, enda önnur tæki framar á forgangslista Landspítalans. Nýtt tölvusneiðmyndatæki kostar um 200 milljónir króna.

Sjá einnig:

Margir flutningar vegna bilunar

Sjúklingar fluttir fram og til baka

mbl.is