Háværar kröfur eru um að indverskur þingmaður segi af sér þingmennsku eftir að það náðist á myndskeið er hann hótar andstæðingum í stjórnmálum því að ættingjum þeirra verði nauðgað.
Tapas Pal, þingmaður Trinamool flokksins, heyrist á myndskeiðinu, sem er tekið upp á snjallsíma, lýsa því yfir að ef félagar í kommúnistaflokki reyni að ógna starfsmönnum hans þá muni hann ekki hlífa þeim heldur muni hann sleppa sínum mönnum lausum svo þeir geti farið og nauðgað konum þeirra.
Ummæli hans voru birt opinberlega í dag og vöktu litla hrifningu ekki síst meðal flokksfélaga hans en flokkurinn er sá fjórði stærsti á indverska þinginu. Pal reyndi að draga úr skaðanum með að segja að um misskilning sé að ræða. „Ég nefndi aldrei nauðgun, ég sagði áhlaup (rape/raid). Ég sagði að gera ætti áhlaup á allt þetta fólk og staði, þar á meðal konur og gamalmenni.“
En svo virðist sem ekki einu sinni eiginkona hans, Nandini, standi við bakið á honum. „Mér líður skelfilega vegna þessa. Hvað sem hann sagði þá á hann ekki skilið að vera þingmaður.“