Vísindamenn flugu með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir Kötlu í kvöld, þar sem líkur eru taldar á að nýir sigkatlar hafi myndast í Mýrdalsjökli. Lítið sást þó vegna lélegs skyggnis. Töluverð brennisteinslykt er af Múlakvísl að sögn bænda í Mýrdal og augljóst að hlaupvatn er í ánni.
Þegar hlaup koma undan sigkötlum í jökli bræðir jarðhiti jökulinn og vatn safnast fyrir, sem hleypur svo fram stundum með miklum látum. Slíkt er nokkuð þekkt í Kötlu, en virknin hefur ekki verið þess eðlis að ástæða sé til að hafa áhyggjur af gosi eða stóru hlaupi.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti engu að síður yfir óvissustigi í dag, þar sem ekki er hægt að útiloka að stærri flóð komi skyndilega, og verður viðbragðstími þá mjög skammur.
„Snemma í morgun fann maður úti á hlaði mjög sterka brennisteinslykt og ég hef heyrt frá Mýrdælingum hér víða sem hafa fundið brennisteinslykt,“ segir Jónas Erlendsson, fréttaritari mbl.is og Morgunblaðsins og bóndi í Fagradal.
Að sögn Jónasar er töluvert meira vatn í Múlakvísl og auðséð að þar er ekkert leysingavatn á ferðinni. „Það leynir sér ekki að þetta er hlaupvatn og það er töluvert mikil brennisteinslykt af ánni.“
Þrjú ár eru á morgun síðan hringvegurinn fór í sundur þegar stórt hlaup hófst í ánni úr fjórum kötlum syðst í Mýrdalsjökli. Smíði nýrrar brúar, í stað þeirrar sem gaf sig undan straumnum, er fyrst að ljúka nú og var umferð hleypt á hana í fyrsta sinn í síðustu viku.
Skammtímabrúin sem sett var upp á methraða á sínum tíma stendur enn um sinn, en í dag fjarlægðu sérfræðingar Veðurstofunnar vatnshæðar- og rafleiðnimæla sem voru á gömlu brúnni og færðu þá á þá nýju.
Hlaupið sem nú er í ánni telst minniháttar og ekki er búist við að það verði neitt í líkingu við hlaupið 2011. Rafleiðni í ánni hefur farið vaxandi frá aðfaranótt laugardagsins 5. júlí, bæði í Múlakvísl og jökulsá á Sólheimasandi, og er líkleg orsök talin leki úr jarðhitakerfum undir Mýrdalsjökli.
Brennisteinsvetni berst frá báðum ám og segir Veðurstofa Íslands rétt að gæta varúðar í nánd þeirra, vegna hættulegra lofttegunda. Ferðafólki er því ráðið frá því að stoppa við árnar.
„Við þessar aðstæður getur mikið magn hættulegra gastegunda orsakað ertingu í slímhúð og augum sem og tap á lyktarskyni. Í einstaka tilvikum getur þetta leitt til yfirliðs vegna súrefnisskorts. Þetta á sérstaklega við þar sem ár koma undan jöklum og því rétt að hafa varann á,“ skrifar sérfræðingur Veðurstofunnar.
Veðurstofa Íslands hefur annast eftirlit með flóðum og flóðaviðvaranir frá árinu 2009 og eru þar nokkrir starfsmenn í fullu starfi við vatnsmælingar. Vöktunarkerfið streymir gögnum frá mælistöðvum á rauntíma, greinir þau, birtir og sendir út viðvaranir með sjálfvirkum hætti ef þörf krefur.