Heimildarmynd sem framleidd er af bandaríska leikaranum og leikstjóranum Robert Redford um Breta sem hefur setið í fangelsi í tæpa þrjá áratugi verður sýnd á CNN í kvöld. Susan Sarandon er þulur í myndinni en í henni verða birt ný gögn sem benda til þess að Kris Maharaj hafi setið saklaus á dauðadeild en hann var dæmdur til dauða árið 1987. Samkvæmt vef Reprive-samtakanna þykir nánast fullvíst að Maharaj, sem er 75 ára að aldri, hafi ekki framið morðin sem hann var dæmdur fyrir.
Kris Maharaj var árið 1987 dæmdur til dauða í Miami fyrir morðið á Derrick og Duane Moo Young. Dauðarefsingunni var breytt í lífstíðardóm árið 1997. Maharaj heldur því fram að kólumbískir eiturlyfjabarónar beri ábyrgð á því að hafa skotið Duane og Derrick Moo Young til bana í Miami árið 1986.
Lögmenn Maharajs segja að morðin hafi verið að undirlagi Pablos Escobars, sem stýrði Medellin-eiturlyfjahringnum í Kólumbíu en hann var skotinn til bana af sérsveitum kólumbísku lögreglunnar árið 1993.
Svo virðist, eftir þeim gögnum sem nú verða lögð fram, að Moo Youngs hafi annast peningaþvætti fyrir kólumbíska eiturlyfjabaróna og „týnt“ fimm milljörðum Bandaríkjadala sem hann átti að koma í umferð löglega.
Í mynd Refords er meðal annars rætt við Maharaj og er það í fyrsta skipti sem bandarísk sjónvarpsstöð birtir viðtal við hann. Í myndinni kemur fram að Maharaj hafi alltaf haldið fram sakleysi sínu og hafi haft staðfesta fjarvistarsönnun. Eins hafi hann staðist lygapróf. Þrátt fyrir þetta sitji hann enn í fangelsi dæmdur fyrir morð.
Í myndinni er einnig fjallað um veilur í vörn Maharajs á sínum tíma. Til að mynda voru engin vitni leidd fyrir réttinn af hálfu lögmanns hans, Erics Heldons. Vörin fólst einungis í níu orðum: „Your Honor, the defense would rest at this time.“
Vefur Reprive