Aftökum frestað tímabundið

AFP

Hæstiréttur Indlands hefur frestað tímabundið aftökum tveggja manna sem tóku þátt í hópnauðgun í strætisvagni í Nýju-Delí. Fórnarlamb þeirra lést af völdum áverka sem hún varð fyrir.

Aftöku Vinay Sharma leikfimiskennara og Akshay Singh, sem starfar við þrif á strætisvögnum, var frestað á meðan farið er yfir áfrýjun þeirra, segir lögmaður þeirra, A.P. Singh. Hann segir að ákærur á hendur skjólstæðingum hans eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. „Þeir voru ekki einu sinni í Delí þegar árásin á að hafa átt sér stað,“ segir hann.

Fjórir menn voru dæmdir til dauða í fyrra fyrir að hafa nauðgað 23 ára gamalli konu í strætisvagni í desember 2012. Árásin vakti mikinn óhug og reiði meðal almennings í Indlandi og víðar.

Hæstiréttur staðfesti dauðadóma yfir mönnunum fjórum en hinir tveir hafa þegar áfrýjað niðurstöðunni. 

Unga konan var á heimleið úr bíó ásamt félaga sínum er mennirnir réðust á hana og beittu meðal annars járnröri sem vopni gegn henni. Félagi hennar var barinn til óbóta og gat því ekki aðstoðað hana á meðan mennirnir frömdu ódæðið. Fórnarlömbunum var síðan hent út úr strætisvagninum og skilin eftir í blóði sínu nakin í vegkantinum. 

Alls voru árásarmennirnir sex talsins. Einn þeirra var dæmdur fyrir unglingadómstól og einn framdi sjálfsvíg í gæsluvarðhaldi.

mbl.is