DNA rannókn staðfestir sekt karlmanns sem dæmdur var til dauða fyrir morð á þremur manneskjum, samkvæmt dómi sem féll í Texas-ríki í Bandaríkjunum í dag og greiðir þannig fyrir aftöku hans.
Hank Skinner hefur setið á dauðadeild í um tvo áratugi en árið 1995 var hann dæmdur til dauða fyrir morðið á kærustu sinni, Twilu Busby, og tveimur fullorðnum sonum hennar. Alla tíð hefur hann haldið fram sakleysi sínu og sagt að lífsýnarannsókn myndi leiða sakleysi hans í ljós.
Í dómnum frá því í dag kemur fram að DNA rannsóknin hafi ekki verið Skinner í hag og að niðurstöðurnar hefðu engu breytt um sakfellinguna.
Lögmenn Skinner sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust ætla að áfrýja dómnum. „Við erum mjög vonsvikin og munum áfrýja. Við hvetjum dómstóla til þess að líta til allra sönnunargagna er sýna fram á sakleysi hans,“ sagði í yfirlýsingunni.
„Of mikill vafi ríkir um sekt hans til þess að láta aftökuna fram ganga, sér í lagi vegna þess að yfirvöld hafa ekki varðveitt öll sönnunargögn.“
Lögmaður Skinners hefur áður bent á annan mann sem hugsanlegan morðingja. Sá hetir Robert Donnell og var frændi konunnar sem var drepin. Hann er nú látinn. Lögmaðurinn segir að Donnell hafi áreitt konuna nokkrum klukkustundum fyrir morðin.
Frétt mbl.is: Segja DNA sanna sakleysi fangans