Tveir karlmenn voru hengdir í Singapúr í morgun fyrir fíkniefnabrot. Mennirnir voru á fertugs- og fimmtugsaldri og voru báðir frá Singapúr. Sá yngri var dæmdur fyrir að flytja inn um 90 grömm af heróíni, en sá eldri fyrir að selja 40 grömm af sama efni. Um var að ræða fyrstu aftökur í landinu frá því þær voru tímabundið stöðvaðar árið 2011 meðan löggjöf um dauðarefsingar var endurskoðuð.
Heimilt er að dæma glæpamenn til dauða í Singapúr fyrir að flytja inn yfir 15 grömm af heróíni, en dauðarefsingu er einnig beitt í ýmsum öðrum gerðum fíkniefnabrota sem og morðmálum. Áður var dómurum skylt að dæma brotamenn til dauða fyrir slíka glæpi, en nú hefur þeim verið gefið svigrúm til að dæma þá í lífstíðarfangelsi séu ákveðnar aðstæður fyrir hendi.
Í kjölfar breytinganna hafa níu dauðadæmdir fangar sótt um endurskoðun á dauðadómum sínum. Mennirnir sem hengdir voru í morgun sóttust hins vegar ekki eftir endurskoðun og sögðust átta sig á afleiðingum gjörða sinna.
Ýmis mannréttindasamtök hafa kallað eftir því að borgríkið hætti að beita dauðarefsingum, en stjórnvöld segja þær aftur á móti hafa nauðsynlegan fælingarmátt gegn ýmsum glæpum.