Fjölmargir leggja land undir fót um verslunarmannahelgina og búast má við að umferðin þéttist í kvöld og á morgun að sögn lögreglu.
Að sögn lögreglunnar á Blönduósi hefur umferðin ekki verið mikil í dag en búist er við að fleiri verði á ferðinni á morgun.
Lögreglan á Selfossi segir umferðina í gegnum bæinn hafa verið nokkuð þétta í dag en gengið vel fyrir sig. Þeir sem leggja leið sína á þjóðhátíð þurfa að aka í gegnum Selfoss og segir lögregla að meiri þungi færist líklega í umferðina á morgun og myndast þá oft stífla á þjóðveginum þar sem hann liggur í gegnum bæinn.
Evrópumeistaramótið í mýrarbolta fer fram á Ísafirði um helgina og eru hátíðargestir farnir að týnast rólega í bæinn. Umferðin hefur þó verið hæg en reiknað er með að fleiri streymi á svæðið síðar í kvöld og á morgun.