Baða sig í sólargeislum

Gestir þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum skriðu úr tjöldum sínum í morgun í sól og blíðu. Margir höfðu eflaust búið sig undir vætu og vind enda hafði veðurspá gert ráð fyrir slíku. Ætla má því að létt sé yfir bæði Eyjamönnum og gestum þjóðhátíðar.

Jón Gunnar Geirdal, fram­kvæmda­stjóri Ys­lands, er staddur í Eyjum og segir að veðrið gefi tóninn fyrir það sem koma skal á hinni 140 þjóðhátíð sem nú fer þar fram.

„Ég hef komið á margar þjóðhátíðir og oft verið í góðu veðri en það hefur aldrei verið betra en í dag, það er glampandi sól. Það er ekki ský á himni, þetta eru Costa del Vestmannaeyjar,“ segir Jón Gunnar um veðrið.

Hann segir að fólk sitji á götum úti í sólbaði og það sé mjög góður andi yfir fólki.

mbl.is