Búast má við miklu annríki í Vínbúðum landsins í dag en vikan fyrir verslunarmannahelgi er að jafnaði ein annasamasta vika ársins.
Þar af er föstudagurinn sá dagur vikunnar sem mest selst af áfengi. Í fyrra seldust tæplega 727 þúsund lítrar þessa viku. Til samanburðar seldust 438 þúsund lítrar vikuna 15.-20. júlí í fyrra.
Flestir viðskiptavinir koma í Vínbúðina föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi. Í fyrra komu nærri 13 þúsund viðskiptavinir á milli kl. 16 og 18 á þeim degi. Þar sem álagið er mest er ekki óalgengt að grípa þurfi til þess ráðs að hleypa viðskiptavinum inn í hollum.