Fólk er farið að streyma í vínbúðir víða um land, en dagurinn fyrir verslunarmannahelgina er einn annasamasti dagur ársins í áfengisverslununum. Þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði í Heiðrúnu voru nokkuð langar biðraðir farnar að myndast og má gera ráð fyrir því að viðskiptavinum muni fjölga enn meira þegar líður á daginn.
Í fyrra var salan í verslunum Vínbúðarinnar 727 þúsund lítrar vikuna fyrir verslunarmannahelgina, en til samanburðar seldust 438 þúsund lítrar vikuna áður. Föstudagurinn er jafnan annasamasti dagur vikunnar, en í fyrra mættu 13 þúsund manns í búðirnar milli 16 og 18.