Ellefu ára glaður sjálfboðaliði

Natan Elís Valtýsson
Natan Elís Valtýsson Mynd/Jón Kristján Sigurðsson

,,Ég kom hingað á unglingalandsmótið með pabba mínum sem er aðstoða þátttakendur í FIFA-leiknum sem er einn af stórum dagskrárliðum mótsins. Þegar á Sauðárkrók kom langaði mig að gera eitthvað skemmtilegt því ég ætlaði ekki að keppa. Það varð úr að ég bauð mig að starfa sem sjálfboðaliði. Þetta er bara búið að vera skemmtilegt og ég hef haft nóg fyrir stafni,“ sagði Natan Elís Valtýsson 11 ára Hafnfirðingur og nemandi í Hvaleyrarskóla.

Natan sagðist hafa verið að dreifa ýmsu efni á mótssvæðinu og svo ætlaði hann að fara hjálpa til við knattspyrnukeppnina.

Hann sagðist aldrei hafa verið sjálfboðaliði áður en þetta væri gefandi og það væri gaman að geta lagt fram hjálparhönd. Þetta væri mikilvægt starf. Hann tekur þátt í íþróttastarfi en hann hefur æft með Haukum handbolta í tvö ár.

Ætlar að segja vinum frá mótinu

,,Ég hefði getað skráð mig til keppni hér á Sauðárkróki enda hafði ég til þess aldur í fyrsta skipti. Ég er ákveðinn að taka þátt í mótinu sem verður á Akureyri næsta sumar. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og ætla halda áfram að æfa og keppa í framtíðinni,“ sagði hann.

„Það hefur komið mér á óvart hvað það er mikið fólk hér á mótinu á Sauðárkróki. Mótið er allt öðruvísi en ég hafði gert mér grein fyrir en það er flott og ég ætla að vera með næst. Það er gaman að hjálpa til á þessu móti og kynnist því frá annarri lið. Ég ætla að segja vinum mínum hvað þessi mót eru skemmtileg og það er aldrei að vita að þeir komi með mér á mótið á Akureyri,“ sagði Natan glaður í bragði og rauk af stað því verkefnin biðu.

mbl.is