„Tjaldsvæðið er þéttsetið og víða tjaldað í görðum. Síðan hefur fólk verið að koma í alla nótt þannig að það er nokkuð fjölmennt,“ segir Jón Páll Hreinsson gjaldkeri Mýrarboltans á Ísafirði.
Jón Páll áætlar að svipaður fjöldi fólks sé á svæðinu og í fyrra og segir hann veður hafa verið gott þrátt fyrir einhvern kulda yfir hánóttina.
„Það er alveg blankalogn hér og hreyfir hreinlega ekki strá.“
Keppni hefst í mýrarboltanum klukkan 12 í dag og taka um 50 lið þátt. Jón Páll segir liðin í ár vera færri en fjölmennari en í fyrra.
„Við erum að sjá allt að 30 manna lið hérna í ár. Það eru engar eiginlegar reglur um fjölda þó aðeins séu hámark sex keppendur inni á vellinum í einu, þetta er í raun alltaf að vera meira skemmtimót heldur en alvarleg keppni,“ segir Jón Páll.
Athygli vekur að samkvæmt reglum á vefsíðu mýrarboltans mega stelpur vera með í liðum í karladeild, en strákar ekki með í liðum í kvennadeild.
Mýrarboltinn er nú haldinn í tíunda sinn, en skemmtilegar hefðir og nafngiftir hafa skapast í kringum mótið. Venjan er að krýna sigurvegara í bæði karla- og kvennaflokki. Evrópumeistaratitillinn fer hins vegar einfaldlega til þess liðs sem stendur sig best óháð kyni.
„Í fyrra var t.d. stelpuliðið með betra sigurhlutfall en strákaliðið og þá hlaut það einfaldlega Evrópumeistaratitilinn. Ég held að við séum eina knattspyrnumótið í heiminum þar sem Evrópumeistari er krýndur óháð kyni, en Sepp Blatter mætti taka sér þetta til fyrirmyndar“ segir Jón Páll.
Engin „liðanafnanefnd“ er í íþróttinni, en af því leiðir að nöfnin eru eins misjöfn og þau eru mörg að sögn Jóns Páls.
„Ég held að við höfum aldrei hafnað nafnavali liðs. Horny Gorillas er skipað strákum af Norðurlandi sem hafa tekið þátt nokkrum sinnum og leggja mikið í keppnina. Síðan koma líka Mínútumenn sterkir inn sem og Forynjur. Ofurkonur koma síðan frá Ísafirði og hafa gert góða hluti á heimavelli.“
Sigurvegurum Evrópumeistaramótsins á Ísafirði býðst að taka þátt í heimsmeistaramótinu í Finnlandi, en álíka keppnir eru haldnar víða um heim. Jón Páll viðurkennir að nokkuð frjálslega sé farið með Evrópu- og heimsmeistaratitla í íþróttinni. Hann ítrekar hins vegar að Ísfirðingar hafi einfaldlega verið svo snemma með mýrarboltann að þeir hafi talið rétt að tala um Evrópumeistara og það standi enn.
Áætlað er að næstu Evrópumeistarar verði krýndir um seinni part sunnudags.