Landsmótið sett með pompi og prakt

Frá setningarathöfninni í gær
Frá setningarathöfninni í gær Mynd/Jón Kristján Sigurðsson

Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðarkróki hófst með pompi og prakt í gærkvöldi þegar þátttakendur gengu fylktu liði inn á íþróttavöllinn á setningarathöfninni.

Um átta til níu þúsund manns eru á svæðinu að sögn Jóns Kristjáns Sigurðssonar, kynningarfulltrúa UMFÍ.

Yfir 1.500 keppendur á aldrinum ellefu til átján ára eru skráðir til leiks á mótinu en keppnisdagskráin hófst í blíðskaparveðri í morgun. Keppt verður í sautján greinum og hafa þær aldrei verið fleiri. Þær eru: bogfimi, frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, motorcross, siglingar, skák, stafsetning, strandblak, sund, tölvuleikir, upplestur og íþróttir fatlaðra. Keppt verður áfram á morgun en mótinu lýkur með flugeldasýningu á miðnætti annað kvöld.

Þakkarskjöldur afhjúpaður

Eftir setningarathöfnina í gærkvöldi var afhjúpaður þakkarskjöldur á íþróttavallarsvæðinu. Það voru Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, sem afhjúpuðu þakkarskjöldinn í sameiningu í blíðskaparveðri.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sagði af þessu tilefni það heiður fyrir hönd hreyfingarinnar að fá að afhenda sveitarfélaginu þennan minnisvarða til minningar um það dugmikla og kröftuga starf sem hefur verið unnið á Sauðárkróki. Fyrir á svæðinu eru þakkarskildir frá Landsmóti UMFÍ sem haldin voru 1971 og 2004, og frá unglingalandsmótunum 2004 og 2009.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður …
Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, afhjúpa skjöldinn. Mynd/Jón Kristján Sigurðsson
mbl.is