Lognið hló dátt í nótt

Vel hefur viðrað til hátíðarhalda á Neskaupstað
Vel hefur viðrað til hátíðarhalda á Neskaupstað Ljósmynd/Kristín Hávarðardóttir

„Hér eru líklega um þrjú þúsund manns með heimafólki,“ segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, einn skipuleggenda Neistaflugs á Neskaupstað. Hún segir þetta vera nokkuð svipaðan fjölda og undanfarin ár en hátíðargestir eru að miklu leyti heimamenn og brottfluttir heimamenn. 

„Það er ekkert rosalega mikið tjaldað, það eru svo margir sem eru að hitta vinafólk sitt og gista í heimahúsum. Margir brottfluttir Norðfirðingar til dæmis sem eru að hitta foreldra sína. Það er því ekki alveg að marka tjaldstæðin hvað varðar fjölda,“ segir Þórfríður. 

Einkennisorð hátíðarinnar eru „Verið velkomin til Neskaupstaðar þar sem lognið hlær dátt“, en Þórfríður segir þau hafa staðist fullkomlega hingað til. 

„Það var mjög gott veður í nótt og spáir góðu áfram þannig að við erum bjartsýn á næstu daga.“  

Mikill bæjarbragur á Neistaflugi

Mikill bæjarbragur er á hátíðinni. Í gærkvöldi fór fram hverfaskemmtun sem fólst meðal annars skrúðgöngu og söngkeppni milli hverfa. Síðan steig Raggi Bjarna á stokk með tónleika áður og hélt gleðinni áfram langt fram eftir kvöldi með balli ásamt Eyþóri Inga og Hlyni Ben. 

Barnadagskrá verðir bæði í dag og á sunnudaginn og unglingadagskrá fyrir þá sem eru eldri en 14 ára. Á unglingadagskránni verður m.a. kvöldvaka, grill og tónlist. Einnig munu Sveppi og Villi stíga á stokk um helgina auk hinna sívinsælu Skoppu og Skrítlu. Brekkusöngur verður síðan á morgun og kemur Páll Óskar síðan fram á sviði.  

„Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hér um helgina,“ segir Þórfríður.

Vefsíða Neistaflugs

Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar spiluðu fyrir gesti í gær.
Jónas Sig og ritvélar framtíðarinnar spiluðu fyrir gesti í gær. Ljósmynd/Kristín Hávarðardóttir
Stemning var í salnum á tónleikum gærkvöldsins.
Stemning var í salnum á tónleikum gærkvöldsins. Ljósmynd/Kristín Hávarðardóttir
mbl.is