Stemning í öllum hornum landsins

Börn að leik á Hömrum á Akureyri.
Börn að leik á Hömrum á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Hátíðahald vegna verslunarmannahelgarinnar er nú í fullum gangi um allt land og höfðu forsvarsmenn hinna ýmsu hátíða frá góðu að segja þegar mbl.is heyrði í þeim í dag.

Almennt töluðu menn um mikla stemningu og gott veður, hvort sem um drullumallara í Ísafirði eða innipúka í Reykjavík var að ræða. 

Drullumall á daginn - stanslaust stuð á kvöldin

„Hið stórgóða veður á Ísafirði í dag setur punktinn yfir i-ið, en það er alltaf góð stemning á Mýrarboltanum,“ segir skipuleggjandi hátíðarinnar í samtali við mbl.is. Segir hann mótið hafa gengið vel og að menn taki boltanum misalvarlega. „Sumir virðast frekar vera hérna til að drullumalla en að keppa, sem er bara skemmtilegt, á meðan aðrir taka þetta alvarlega.“ Oft sé meira að segja rígur milli manna yfir leikjunum. „Til dæmis var ægilegur leikur hérna áðan, þar sem liðið Píkubarnar vann FC Ragnarök tvö-núll, og allt varð brjálað. Menn báru dómara þungum sökum.“

Engar óeirðir hafi komið upp í dag. „Ég las í blöðunum að einhverjir hefðu verið teknir fyrir að vera óþekkir í nótt. Það er alltaf óheppilegt en þetta gæti verið verra.“ Tekið er fram að það sé engin frétt að engum sé nauðgað á Mýrarboltanum, heldur sé það sjálfsagt.

Ofmetið að fara úr bænum

Skippuleggjendur Innipúkans í Reykjavík gefa lítið fyrir stressið og umferðina sem þeir telja fylgja verslunarmannahelginni. „Mér finnst skemmtilegra að fara úr bænum allar aðrar helgar.“

Þá hafi stemningin verið góð í gær og í dag. „Þetta er svona vinaleg miðbæjarstemning. Allir eru í góðum gír að hlusta á tónlist.“ Segja þeir að Innipúkinn sé besta hátíðin fyrir tónlistarunnendur, enda séu bestu hljómsveitirnar þar. Ekki hafið komið til óeirða í dag. „Lögreglan hefur bara verið ánægð og við erum í skýjunum.“

Ekki náðist í skipuleggjendur Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum við vinnslu fréttarinnar en mbl.is vonast til að heyra í þeim hljóðið innan skamms. Þá eru ótaldar hinar fjölmörgu barna- og fjölskylduvænu hátíðir á landinu á borð við Eina meið öllu á Akureyri, Neistaflug á Neskaupsstað og Edrúhátíð SÁÁ, en stemningin þar er ekki síður góð að sögn forsvarsmanna.

mbl.is