Alls kyns flygildi í Fljótshlíð

„Hér hafa verið alls kyns flygildi, mótorvélar, fis og fleira,“ segir Valur Stefánsson formaður Félags íslenskra einkaflugmanna, en árleg flugkoma fór fram í Múlakoti í Fljótshlíð um helgina.

Valur áætlar að um 300 manns hafi verið á svæðinu þegar mest var og 40 flugvélar. Um er að ræða fjölskylduhátíð, en félög flugmanna og flugvélaeigenda halda mótið. Hann segir flugmenn gjarnan mæta með stórfjölskylduna með sér og mikil og góð stemning skapist á svæðinu.

„Í gær voru ýmsir leikir fyrir krakka og síðan var m.a. lendingarkeppni í dag á flugvélunum. Það er nóg um að vera,“ segir Valur.

„Allt hefur gengið alveg frábærlega, í dag blés örlítið en annars hefur verið bara sól og logn mestmegnis allan tímann.“

Mótið hefur verið haldið í yfir 20 ár, en hátíðarhöldum lýkur að mestu í dag og margir hafa haldið á brott á flugvélum sínum.

„Við erum nokkur sem verðum hér áfram í nótt, en fólk hefur verið að tínast burt. Einhverjum fannst t.d. alveg ómögulegt að missa af brekkusöngnum í Eyjum og hafa því flogið þangað,“ segir Valur.

mbl.is