Ríki Evrópusambandsins samþykktu fyrir helgi að aflétta refsiaðgerðum sambandsins gegn Færeyjum sem komið var á síðasta sumar vegna ákvörðunar færeyskra stjórnvalda um að taka sér einhliða margfalt meiri kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum en þeir höfðu áður haft samkvæmt samningum.
Samkomulag náðst fyrr á þessu ári á milli framkvæmdastjórnar ESB og Færeyinga um að þeir síðarnefndu drægju verulega úr síldveiðum sínum en refsiaðgerðirnar fólu fyrst og fremst í sér löndunarbann í höfnum sambandsins á síldar- og makrílafla sem veiddur hafði verið af færeyskum skipum. Samkomulagið var gert í framhaldi af því að ESB, Norðmenn og Færeyingar sömdu um makrílveiðar en færeysk stjórnvöld gáfu íslenskum ráðamönnum þá skýringu að þeim hafi verið nauðungur sá kostur að semja um veiðarnar vegna refsiaðgerða ESB.
Fram kemur á fréttavefnum Undercurrentnews.com í dag að refsiaðgerðunum yrði væntanlega aflétt í síðasta lagi um miðjan ágúst samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórn ESB. Bæði samtök skoskra og danskra uppsjávarsjómanna hafi mótmælt því harðlega að refsiagerðunum yrði aflétt fyrir atkvæðagreiðsluna. Ekki hafi hins vegar fengist gefið upp hvernig atkvæði hafi fallið.