Nokkrir ældu í morgun

Víkingur í Landeyjahöfn
Víkingur í Landeyjahöfn Guðm. Sv. Hermannsson

„Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel og báturinn verið fullur allar ferðir,“ segir Sigurmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours, um ferðir helgarinnar milli lands og Eyja.  

Um er að ræða fyrstu verslunarmannahelgina sem bátur fyrirtækisins siglir reglulega milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, en báturinn Víkingur var keyptur í fyrra og tekur hann um 90 farþega. Hann hefur undanfarið sinnt áætlunarsiglingum á svæðinu og miðað ferðirnar við áætlun Strætó í Landeyjahöfn.

„Við erum búnir að sigla átján ferðir um helgina, en munum líklega fara um tuttugu í heildina. Þetta er svipað og ef 30-40 fokker vélar hefðu flogið á milli,“ segir Sigurmundur.

Talsverður vindur var þegar fyrstu ferðir dagsins voru farnar í morgun, en Sigurmundur segir nokkurn velting hafa verið í bátnum.

„Menn ældu eitthvað út fyrir borðstokkinn, en engum varð meint af. Þetta verður síðan bara betra eftir því sem líður á daginn.“

Sífellt fleiri sækja í Vestmannaeyjar

Viking Tours rekur tvo báta, en sá minni heitir Víkingur II og er helst notaður í útsýnissiglingar umhverfis Vestmannaeyjar. Nokkur aukning hefur orðið á fjölda ferðamanna sem leggja leið sína til Eyja í ár að sögn Sigurmundar og er því nóg að gera hjá fyrirtækinu.

„Þetta eru fyrst og fremst erlendir ferðamenn, en nokkuð er um Íslendinga líka. Við byrjum að sigla snemma í fyrramálið og það er þétt bókað,“ segir Sigurmundur.

„Við höfum líka verið að í vetur, en í febrúar og mars fluttum við t.a.m. 2.500 farþega þegar Herjólfur fór ekki í Landeyjahöfn.“

Sigurmundur er ánægður með siglingar helgarinnar og segir framkomu farþega almennt hafa verið til fyrirmyndar.

„Það var ekkert vesen og allir kátir, þannig að ég er mjög sáttur.“

Vefsíða Viking Tours

Fésbókarsíða Viking Tours

Sigurmundur Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours.
Sigurmundur Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours. mbl.is
mbl.is