Þakklát „frábærum Þjóðhátíðargestum“

Blys voru tendruð í brekkunni í gærkvöldi.
Blys voru tendruð í brekkunni í gærkvöldi. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

„Við í þjóðhátíðarnefnd erum gríðarlega ánægð og viljum skila þakklæti til allra þeirra frábæru gesta sem hingað komu og skemmtu sér stóráfallalaust,“ segir Hörður Orri Grettisson í þjóðhátíðarnefnd um helgina í Vestmannaeyjum. Hörður kveðst mjög ánægður með helgina og segir frábært að slíkur fjöldi fólks geti komið saman og skemmt sér vel. 

Enn er nokkur fjöldi fólks á eyjunni, en meirihluti gesta hefur þó tínst í land í þéttsetnum Herjólfi og Víkingi í dag. Vindur hefur gengið niður eftir því sem líður á kvöldið að sögn Harðar, en íþróttahúsið verður þó opið í nótt fyrir þá sem ekki eiga miða í land í kvöld.

Partý frameftir morgni

Hátíðarhöld stóðu fram á morgun og var mikið líf og fjör í tjöldum.

„Það var ball á danspöllunum til fimm, hálf sex, en svo var partý í tjöldum alveg frameftir morgni. Það var gríðarlega fjölmennt hérna í gærkvöldi og það sáu allir sem voru í brekkunni,“ segir Hörður.

Hann telur að laugardagspassinn sem boðið var upp á í ár hafi aukið talsvert fjölda gesta um helgina, þó þeir sem nýttu sér þann möguleika hafi flestir verið farnir í gærkvöldi. Endanlegar tölur um fjölda gesta eru ekki komnar í ljós, en Hörður útilokar ekki að hátíðin í ár sé með þeim allra fjölmennustu. Þrif og frágangur eru nú í fullum gangi í Herjólfsdal og ganga þau störf ágætlega að sögn Harðar.

„Þetta gengur bara svipað og venjulega, það er nóg að gera þegar svo margir hafa verið á svæðinu. Við erum hins vegar enn og aftur fyrst og fremst þakklát fyrir góða framkomu gesta og virkilega skemmtilega Þjóðhátíð,“ segir Hörður. 

mbl.is