Allir brosandi á Edrúhátíð

„Hér voru yfir þúsund manns, þessi litla sæta hátíð er búin að vaxa og dafna undanfarin ár og ekkert lát virðist vera á því,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, en Edrúhátíð SÁÁ fór fram í Laugalandi í Holtum um helgina.  

Hátíðin hefur verið haldin árlega í um þrjátíu ár, en var í Laugalandi í þriðja sinn um helgina. Rúnar segir flesta hátíðargesti hafa verið fjölskyldufólk og dagskráin hafi hentað öllum aldurshópum. Einn rotaðist í smávægilegu slysi í sundlauginni, en honum heilsast vel og ekki hlaust varanlegur skaði af. Önnur óhöpp urðu ekki. 

„Það var fullt af hápunktum, en sunnudagurinn stóð eflaust upp úr. Þá fór fram kraftakeppnin Sterkasti maður Laugalands úti, inni var Edda Björgvins með uppistand og Leikhópurinn Lotta kom með sýninguna Hróa Hött. Þetta súmmerar upp þessa hátíð, en hún er fyrir alla og allar kynslóðir,“ segir Rúnar.

Hann segir gleðina hafa ráðið ríkjum og andann verið góðan alla helgina.

„Það var frábært að fylgjast með ballinu með Sniglabandinu þar sem feður dönsuðu við litlar dætur sínar, og allir voru kátir. Þessi stemning er það sem stóð upp úr.”

Rúnar segir veðrið hafa verið gott meirihluta helgarinnar, þrátt fyrir örlitla úrkomu. 

„Það kom smá rigning á laugardaginn, en eftir það var bara bongóblíða. Tiltekt gekk vel í gær og það voru hreinlega bara allir brosandi á Edrúhátíð.“

mbl.is