Annar hálshöggvinn fyrir barnsmorð

Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu …
Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu dauðarefsinga, þar sem fólk er hálshöggvið fyrir allra augum. Ljósmynd/Wikipedia

Sádiarabískur maður var hálshöggvinn í Jawf héraði landsins dag fyrir að pynta tveggja ára gamlan son sinn til dauða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti landsins. 

Maqbul bin Madi al-Sharari barði son sinn ítrekað með staf, kýldi hann með krepptum hnefa í andlit og brenndi hann víða á líkamanum, en ofbeldið dró hann að lokum til dauða. 

Aftakan í dag var sú átjánda í landinu í ár, en í gær var nepölsk kona hálshöggvin fyrir að skera tveggja ára gamalt barn á háls. Dauðarefsing liggur við ýmsum glæpum í Sádi-Arabíu, t.d. morði, nauðgun, vopnuðum ránum og eiturlyfjasmyglim og er landið eitt þeirra sem framkvæma flestar aftökur á hverju ári. 

Árið 2011 voru 82 teknir þar af lífi, þar af 28 útlendingar. Svipaða sögu er að segja af árinu 2012, en þá voru 79 líflátnir og voru 27 þeirra útlendingar.

mbl.is