Tískumyndir af konu sem er haldið niðri og á henni káfað, hafa vakið mikla reiði á Indlandi. Flestum finnst myndirnar minna á hópnauðgunina í strætisvagni í -Nýju-Delí árið 2012.
Á myndunum, sem ljósmyndarinn Raj Shetye tók, má sjá konu reyna að komast frá hópi ágengra karlmanna í strætisvagni.
Margir hafa lýst yfir hneykslun sinni á Facebook og Twitter og segja myndirnar „hræðilegar“ og viðbjóðslegar“.
Í frétt BBC um málið er haft eftir ljósmyndaranum að myndirnar sýni aðeins stöðu kvenna á Indlandi, en myndirnar voru teknar þar. Myndirnar séu hins vegar ekki byggðar á hópnauðguninni.
Í desember árið 2012 var 23 ára konu nauðgað af fimm karlmönnum í strætisvagni í Nýju-Delí. Konunni var misþyrmt hrottalega og lést hún skömmu síðar af sárum sínum.
Myndirnar voru birtar opinberlega í síðustu viku en ljósmyndarinn kallar myndaseríu sína The Wrong Turn. Myndirnar hafa nú verið fjarlægðar af vefnum Behance, þar sem þær voru birtar.
Þær eru þó birtar með frétt BBC um málið.