Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í dag að Michael Brown, sem lögreglumaður skaut til bana á laugardaginn, hafi verið grunaður um rán í matvöruverslun 20 mínútum áður en hann var skotinn. Var því einnig haldið fram að Brown hafi hótað afgreiðslumanni í búðinni.
Mikil mótmæli hafa fylgt dauða Brown en hann var 18 ára gamall þegar hann lést. Mótmælendur halda margir því fram að hann hafi aðeins verið skotinn því hann var svartur.
Brown var skotinn í Ferguson, sem er úthverfi borgarinnar St. Louis í Missouri ríki í Bandaríkjunum. Mikil mótmæli, óeirðir og ofbeldi hafa verið á svæðinu síðan sem og í fleiri ríkjum Bandaríkjanna.
Samkvæmt tilkynningunni í dag var Brown tengdur við rán á vindlum úr matvörubúð stuttu áður en hann var skotinn af lögreglumanni á gangstétt í bænum um hábjartan dag.
Einnig voru birtar myndir úr öryggismyndavél sem sýnir hávaxinn og þrekinn svartan mann, í stuttermabol og stuttbuxum að ýta starfsmanni búðar. Lögreglan telur það hafa verið Brown.
Jafnframt hefur verið tilkynnt að lögreglumaðurinn sem skaut Brown heitir Darren Wilson, Hann hefur verið lögreglumaður í sex ár.