Neyðarástand og útgöngubann í Ferguson

Nixon lýsir yfir neyðarástandi
Nixon lýsir yfir neyðarástandi AFP

Ríkisstjóri Missouri hefur lýst yfir neyðarástandi í bænum Ferguson vegna mikilla óeirða sem geysað hafa í kjölfar þess að lögreglumaður í bænum skaut hinn átján ára gamla Michael Brown til bana.

Jafnframt mun útgöngubann taka gildi í Ferguson á miðnætti og standa til klukkan fimm í fyrramálið.

Ríkisstjórinn Jay Nixon sagði á blaðamannafundi í dag að útgöngubannið væri eingöngu sett á til þess að „vernda íbúa og byggingar í Ferguson, en ekki til að þagga niður í íbúum“. Fjölmargir mótmæltu á fundinum, en einn kallaði t.d. „Afsakaðu ríkisstjóri, en þú átt enn eftir að ákæra lögregluþjóninn fyrir morð“. Mikil fagnaðarlæti brutust út í kjölfarið. 

Óeirðir og mótmæli hafa geysað í bænum undanfarna daga, en blökkumaðurinn Brown var óvopnaður þegar hvítur lögregluþjónn skaut hann til bana.

Yfirlögregluþjónninn Ron Johnson reyndi að róa æstan lýðinn á fundinum og sagði að óspektir og frammíköll myndi ekki leysa málið.

„Mér er sama hver þið eruð og hvort þið mótmæltuð friðsamlega í gær eða genguð berserksgang. Þið fáið öll sama svarið. Í kvöld verður málið leyst með útgöngubanni, en ekki brynvörðum bílum og táragasi. Við munum ræða við ykkur og gera ykkur ljóst að nú sé tími til kominn að halda heim,“ sagði Johnson.

Fréttir mbl.is:

Mótmælin halda áfram í Ferguson

Skaut óvopnaðan átján ára pilt

Michael Brown
Michael Brown Ljós­mynd/​Fés­bók­arsíðan Justice For Michael Brown
mbl.is