Einn skotinn í Ferguson í nótt

Lögregla í Ferguson notaðist við reyksprengjur og táragas til að tvístra mótmælendum sem virtu ekki útgöngubann í bænum í nótt. Útgöngubannið gilti frá miðnætti til klukkan fimm í morgun, en þrátt fyrir það komu yfir 200 manns saman og mótmæltu. Aðgerðirnar hófust friðsamlega, en hiti færðist í leikinn þegar fleiri söfnuðust saman á staðnum þar sem Michael Brown var skotinn og neituðu að færa sig.

Margir mótmælendur gengu berserksgang eftir því sem leið á nóttina, köstuðu molotov-kokteilum í átt að lögreglu og skemmdu verslanir á svæðinu. Verslunareigendur og íbúar stóðu víða og mynduðu varnarvegg fyrir framan fyrirtæki sín og nokkrir mættu vopnaðir rifflum til að standa vörð um verslanir.

Einn einstaklingur varð fyrir skoti í bænum um klukkan fjögur í nótt, en yfirlögregluþjónn á staðnum sagði í yfirlýsingu að fórnarlambið væri í lífshættu á sjúkrahúsi. Ekki er vitað hvernig atvikið bar að, en lögregla segir einn mótmælanda hafa staðið á miðri götu með skammbyssu og m.a. skotið á lögreglubíl.

Mikil reiði ríkir víða í Bandaríkjunum í kjölfar þess að hvítur lögregluþjónn skaut óvopnaða blökkumanninn Michael Brown til bana. Hann var átján ára gamall, en grunur leikur á um að hann hafi framið rán stuttu áður en hann var skotinn. Ýmis myllumerki hafa sprottið upp á samskiptamiðlinum Twitter undanfarið, þ.á.m. #IfTheyGunnedMeDown og #HandsUpDontShoot.

Fréttir mbl.is:

Neyðarástand og útgöngubann

Skaut óvopnaðan átján ára pilt

mbl.is