Útgöngubann verður i gildi í bænum Ferguson í Missouri í nótt, aðra nóttina í röð. Lögreglan í bænum beitti reyksprengjum og táragasi til að tvístra þeim mótmælendum sem virtu ekki útgöngubannið seinustu nótt. Þrátt fyrir bannið komu yfir 200 manns saman og mótmæltu aðgerðum lögreglu á staðnum þar sem Michael Brown var skotinn. Sjö manns voru handteknir.
Jay Nixon, ríkisstjórinn í Missouri, segir að markmiðið með útgöngubanninu sé að vernda íbúa bæjarins fyrir þjófnaði og ofbeldi.
Mikil reiði ríkir víða í Bandaríkjunum eftir að hvítur lögregluþjónn skaut óvopnaða blökkumanninn Michael Brown til bana. Hann var átján ára gamall, en grunur leikur á um að hann hafi framið rán stuttu áður en hann var skotinn
Lögreglan birti í dag myndband sem fullyrt var að sýndi Brown hnupla úr búð og hóta eiganda búðarinnar. Fjölskylda hins látna gagnrýndi birtinguna harðlega og hafa fjölmargir tekið undir þá gagnrýni, þar á meðal sjálfur ríkisstjórinn.