Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur formlega tekið ákvörðun um að falla frá refsiaðgerðum gagnvart Færeyingum sem gripið var til síðasta sumar vegna ákvörðunar færeyskra stjórnvalda um að taka sér einhliða 105 þúsund tonna kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum. Refsiaðgerðirnar munu formlega falla úr gildi 20. ágúst samkvæmt tilkynningu frá framkvæmdastjórninni.
Fram kemur í tilkynningunni að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB komi í kjölfar þess að Færeyingar samþykktu að draga verulega úr síldveiðum sínum og miða við 40 þúsund tonna kvóta fyrir yfirstandandi ár. Sú hlutdeild sé mun minni en sú sem Færeyingar hafi tekið sér á síðasta ári og stefni síldarstofninum ekki í hættu. Tekið er fram að ákvörðunin um að aflétta refsiaðgerðunum feli ekki í sér samþykki ESB við því að Færeyingar eigi tilkall til 40 þúsund tonna síldarkvóta heldur einungis viðurkenningu á því að veiðar þeirra komi ekki lengur niður á sjálfbærni stofnsins.
Þá er einnig tekið skýrt fram að ákvörðun Færeyinga að taka sér 40 þúsund tonna síldarkvóta í ár feli ekki í sér fordæmi fyrir viðræður strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf í framtíðinni um skiptingu síldarkvótans.