„Að við drögum þá línu að fólk sem komið sé yfir sjötugt fái ekki þá þjónustu sem því ber er nokkuð sem ég kannast alls ekki við og er ekki á stefnuskránni,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Í pistli í Morgunblaðinu um helgina sagði Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri, Landspítalann vera í erfiðri stöðu og að ekki væri hægt að veita fólki þjónustu, svo sem vegna hrönunar í augnbotnum, hjartsláttaróreglu, blóðtappa og blæðingum við heila. Þá fengju krabbameinssjúkir eldri en sjötugir ekki nauðsynlega meðferð á sjúkrahúsinu.
Páll segir rétt hjá Styrmi að staðan á Landspítala sé um margt þröng. Enn skorti fjármagn til að taka upp ný verkefni þó að unnið sé að mörgum góðum verkefnum um þessar mundir. Hvað varðar einstök atriði sem Styrmir nefni skili auknar fjárveitingar til tækjakaupa sér til dæmis í því að verið sé að setja upp búnað sem geri mögulegar æðaþræðingar við heilablóðfall. Rekstrarkostnaður bæði við bakvaktir og æðaleggi þýði hins vegar að ekki sé hægt að taka upp þessa mikilvægu meðferð nema aukið rekstrarfé komi til. Krabbameinslækningar séu í þröngri stöðu því fagfólk hafi vantað til starfa, en unnið sé að lausn þess máls. Svona megi halda áfram. Allt sé þetta þó undirorpið fjárveitingum til sjúkrahússins.