Lögreglumenn beittu táragasi í nótt til þess að dreifa mótmælendum í bænum Ferguson í Missouri-ríki í Bandaríkjunum en mikil mótmæli hafa geisað þar undanfarna daga í kjölfar þess að lögreglumaður skaut 18 ára unglingspilt til bana fyrr í mánuðinum.
Þetta er önnur nóttin í röð sem táragasi er beitt á mótmælendur en fram kemur í frétt AFP að óeirðarlögregla og sérsveitarmenn hafi ítrekað skipað um eitt hundrað mótmælendum að yfirgefa svæðið þegar ákveðið var að beita táragasinu um klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma. Ennfremur segir að færri hafi mótmælt í nótt en aðfararnótt mánudags.
Einn að minnsta kosti var handtekinn í nótt og vitni heyrðu byssuskot. Þjóðvarðliðar, sem kallaðir hafa verið út, hafa hins vegar ekki enn tekið þátt í beinum aðgerðum með lögreglunni.