Faðir ungrar konu sem lést af völdum sára sinna eftir að hafa verið nauðgað af hópi karla í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi gagnrýnir ráðherra sem lét þau orð falla að árásin hafi verið „minniháttar atvik“.
Fjármálaráðherra Indlands, Arun Jaitley, sagði á ferðaráðstefnu í gær að eitt lítið atvik, svo sem nauðgun í strætisvagni í Delí, hafi snúið heiminum á hvolf og kostað Indverja milljónir Bandaríkjadala þar sem ferðamönnum hafi fækkað.
Faðir ungu konunnar segir í samtali við AFP-fréttastofuna að ummæli Jaitleys, sem voru birt í sjónvarpi, hafi ýft upp sár vegna árásarinnar í desember 2012 og fjölskyldan sé harmi slegin vegna orða ráðherrans.
Unga konan var 23 ára gömul er henni var nauðgað hrottalega og síðan hent út úr vagninum á ferð. Nokkru síðar lést hún af völdum sára sinna og vakti árásin mikla reiði í heimalandinu sem og víða um heim. „Það sem hann sagði er alrangt. Ég get ekki lýst í orðum hversu mikið þetta særir okkur,“ segir faðir fórnarlambsins.
Hann gagnrýnir ráðherrann sem kvarti undan því að verða af fjármunum. Slík verðmæti megi sín lítið í samanburði við það sem fjölskyldan missti. Fjármálaráðuneytið hefur nú fjarlægt orðið „minniháttar“ úr ræðu ráðherrans á vef ráðuneytisins. Jaitley hefur einnig beðist afsökunar og segir að orð sín hafi verið slitin úr samhengi.