Mörg hundruð voru viðstödd útför unglingspilts sem lögreglumaður í Ferguson, sem er úthverfi St. Louis í Missouri, skaut til bana fyrir um hálfum mánuði. Athöfnin fór fram í Friendly Temple Batist kirkjunni í St. Louis.
Þann 9. ágúst skaut hvítur lögreglumaður Michael Brown, sem var 18 ára gamall þeldökkur unglingspiltur, til bana skömmu eftir að hafa stöðvað hann fyrir að hafa gengið á miðri götu í Ferguson.
Óeirðir brutust út í kjölfar dauða Browns og stóðu þær yfir dögum saman. Heldur hefur dregið úr spennunni undanfarna daga.
Stórum myndum af Brown var stillt upp við kistu hans inni í kirkjunni. Fjölskylda hans ávarpaði kirkjugesti, en þau sögðu að hann hefði verið góð sál.
Frændi Brown, Eric Davis, segir að sín kynslóð hefði staðið upp gegn því sem gerðist í Ferguson. „Við höfum fengið nóg. Við höfum fengið nóg af því að verið sé að drepa bræður okkar og systur á götunum,“ sagði hann.
„Hlustið á okkur. Við höfum fengið nóg af þessu tilgangslausa drápi.“
Mannréttindafrömuðirnir Al Sharpton og Jesse Jackson voru á meðal viðstaddra við útförina í dag. Jay Nixon, ríkisstjóri Missouri, var ekki á meðal kirkjugesta.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sendi þrjá fulltrúa frá Hvíta húsinu sem voru viðstaddir athöfnina.