Gert er ráð fyrir að mörg þúsund manns verði viðstaddir útför blökkumannsins Michaels Brown í dag. Hann var skotinn, óvopnaður, af lögreglumanni í bænum Ferguson í Missouri þann 9. ágúst sl. Brown var átján ára gamall.
Atvikið hefur leitt til látlausra mótmæla og óeirða í bænum þar sem mikil reiði ríkir meðal íbúa, en mótmæli hafa einnig farið fram víða annars staðar í Bandaríkjunum. Þó ró hafi færst yfir í bænum, tveimur vikum eftir andlát Brown, verður gífurleg öryggisgæsla við útförina.
Athöfnin fer fram klukkan 10 að staðartíma, 15 að íslenskum tíma, í bænum St. Louis en aðeins nánasta fjölskylda verður viðstödd greftrunina.
Brown, sem var í þann mun að hefja nám í menntaskóla, gekk eftir gangstétt í Missouri þennan örlagaríka dag. Hann var á leið úr matvöruverslun og sagði lögregla að hann hefði stolið sígarettupakka. 25 ára lögreglumaður skaut Brown að minnsta kosti sex sinnum með þeim afleiðingum að hann lét lífið.